Félag landsliðsmanns þarf 120 milljónir

Ágúst Elí Björgvinsson
Ágúst Elí Björgvinsson

Ný stjórn danska handknattleiksfélagsins Kolding þarf að safna um fimm til sex milljónum danskra króna til að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Landsliðsmarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson samdi við félagið fyrr á árinu.

Fyrrverandi stjórn félagsins sagði af sér í kjölfar þess að leikmenn samþykktu ekki 40 prósenta launalækkun og kom það sér afar illa því tveir af helstu styrkt­araðilum fé­lags­ins voru í stjórn­inni. Nú þarf nýr formaður, Gunnar Fogt, að safna um 120 milljónum íslenskra króna til að bjarga rekstri félagsins. Hann segist bjartsýnn um að það takist við danska fjölmiðilinn Jydske Vestkysten.

Ágúst Elí sagði í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði að hann væri vongóður um að félagið, sem er það sigursælasta í dönskum handbolta frá upphafi, myndi finna lausn á vandamálinu. Árni Bragi Eyj­ólfs­son og Ólaf­ur Gúst­afs­son léku með liðinu síðasta vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert