Pólland og Rússland fá sæti á HM

Frá leik Íslands og Póllands á HM 2015.
Frá leik Íslands og Póllands á HM 2015. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

IHF, Alþjóða handknattleikssambandið, staðfesti í dag að Rússland og Pólland verða á meðal þátttökuþjóða á HM karla í Egyptalandi í janúar á næsta ári. 

Höfðu þjóðirnar ekki tryggt sér sæti á mótinu, en sambandið ákvað að veita þeim aukasæti. IHF greinir frá á heimasíðu sinni í dag að fjölmargar umsóknir hafi borist um tvö laus aukasæti. 

Urðu Rússland og Pólland fyrir valinu þar sem þau þykja styrkja keppnina og þá spilar fjárhagsstaða IHF sömuleiðis inn í, en þátttaka Rússlands og Póllands færir sambandinu tekjur. 

Ísland verður á meðal þátttökuþjóða, en ekki tókst að leika tvo leiki við Sviss í síðasta mánuði vegna kórónuveirunnar, en sæti á HM átti að vera undir í einvíginu. Fékk Ísland sæti á lokamótinu þar sem liðið var í efri styrkleikaflokki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert