Ég er allavega ekki endanlega hætt

Morgan Marie Þorkelsdóttir.
Morgan Marie Þorkelsdóttir. Árni Sæberg

Handknattleikskonan Morg­an Marie Þor­kels­dótt­ir er ekki viss hvort hún taki þátt á Íslandsmótinu í vetur en hún hefur verið í hléi frá handboltanum í rúmlega eitt ár vegna meiðsla í baki.

Morgan varð Íslandsmeistari með Völsurum á síðasta ári, tímabilinu 2018-19, en tók sér svo hlé vegna þrálátra meiðsla í mjóbaki og spilaði ekkert á síðustu leiktíð. Mbl.is sló á þráðinn til Morgan og spurði hvort hún myndi hefja keppni á ný í haust.

„Ég veit það ekki, það er ekkert voðalega líklegt og ég er ekki með nein plön,“ svaraði hún. „Ég meiddist á mjóbaki í leik fyrir nokkrum árum og hef verið slæm síðan. Ég hef verið að vinna í því en það fylgir því gríðarlegt álag að vera í meistaraflokki.“

Morgan hefur leikið með Val allan sinn feril og var farin að spila A-landsleiki fyrir Bandaríkin aðeins 15 ára gömul en hún keppti með því sextán ára gömul á Ameríkuleikunum árið 2011. Þá var hún í æfingahópi A-landsliðs Íslands haustið 2018.

Hún fagnar einmitt 25 ára afmæli í dag og vill alls ekki segja að hún sé endanlega hætt í handbolta, þó óvíst sé með nánustu framtíð. „Ég er allavega ekki endanlega hætt,“ sagði Morgan Marie við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert