Landsliðsþjálfarinn framlengir um eitt ár

Guðmundur Guðmundsson hefur framlengt samning sinn við HSÍ.
Guðmundur Guðmundsson hefur framlengt samning sinn við HSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands í handbolta og Handknattleikssamband Íslands hafa komist að samkomulagi um framlengingu á samningi um eitt ár.

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ staðfesti tíðindin við Vísi. Er Guðmundur nú samningsbundinn til ársins 2022, en hann gerði þriggja ára samning er hann tók aftur við landsliðinu fyrir tveimur árum. 

Guðmundur þjálfar þýska liðið Melsungen meðfram íslenska landsliðinu. Tók hann við Melsungen, sem leikur í efstu deild Þýskalands, í febrúar en stýrði aðeins liðinu í nokkrum leikjum áður en keppni var hætt í Þýskalandi og í Evrópukeppnum vegna kórónuveirunnar. Er Guðmundur með samning við Melsungen út næsta tímabil. 

Guðmundur gefur Janusi Daða Smárasyni góð ráð.
Guðmundur gefur Janusi Daða Smárasyni góð ráð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur Guðmundur í þrígang tekið við íslenska landsliðinu; fyrst árið 2001, síðan 2008 og loks 2018. Hafnaði liðið ellefta sæti á síðustu tveimur stórmótum; á HM í Danmörku og Þýskalandi 2019 og EM í Austurríki, Noregi og Svíþjóð í janúar á þessu ári. 

Undir stjórn Guðmundar vann Ísland til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlauna á EM í Austurríki tveimur árum síðar. Alls hefur Guðmundur stýrt íslenska liðinu á ellefu stórmótum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert