Hélt það væri klárt rautt og víti

Úr leiknum í Vestmannaeyjum í dag.
Úr leiknum í Vestmannaeyjum í dag. mbl.is/Sigfús

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Valskvenna, var ekki sáttur með tap sín liðs í dag. Liðið tapaði með eins marks mun fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum. Ásgeir sagði að Eyjakonur hafi átt sigurinn skilinn en var samt ósáttur með að fá ekki víti undir lokin þegar Birna Berg Haraldsdóttir tafði Valskonur í því að taka aukakast á síðustu sekúndunum.

„Mér fannst ÍBV eiga skilið að vinna þennan leik miðað við hvernig leikurinn þróaðist í seinni hálfleik. Ég var ekki ánægður með spilamennskuna hjá okkur stóran hluta leiksins, varnarleikurinn var ekki nægilega góður og þar af leiðandi markvarslan ekki. Við keyrum hraðaupphlaupin illa og förum illa að ráði okkar þar. Við skutum einnig illa og hún er feykilega góð í markinu hjá þeim, varði gríðarlega vel,“ sagði Ágúst en hans lið leiddi með einu marki í hálfleik. Liðið var yfir í hraðaupphlaupunum og þar af leiðandi yfir í leiknum eftir fyrri hálfleikinn.

„Ég á eftir að skoða þetta, við fórum með nokkur færi í fyrri hálfleik, hefðum getað verið með betri stöðu þar. Þær eru með góðan markmann sem var að spila vel, eftir á að hyggja held ég að þetta séu ekki ósanngjörn úrslit.“

ÍBV er með tvo nýja leikmenn í sinni útilínu og tóku þær Sunna Jónsdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 41 af 48 skotum liðsins.

„Það kom okkur ekkert á óvart, það hefur verið þannig hjá þér. ÍBV er með hörkugott lið, með alla sína leikmenn klára, en það vantar svolítið í liðið okkar. Við spilum ekki nægilega vel til að vinna þær.“

„Í fyrri hálfleik fannst mér við vera með ágætis tök á þessu, við áttum von á því að þær myndu spila þessa 5+1 vörn. Við byrjuðum illa í seinni hálfleik og vorum miklir klaufar. Við sýndum þó mikinn karakter að koma til baka og vorum nálægt því að fá vítakast hérna á lokasekúndunum og jafna þetta en því miður náðum við því ekki.“

Birna Berg Haraldsdóttir stoppaði það þegar Valskonur voru að flýta sér að taka fríkast á lokasekúndunum og tafði því gestaliðið. Hvernig sá Ágúst það atvik?

„Samkvæmt reglunum hélt ég að það væri klárt rautt spjald og vítakast, það var það sem ég hélt. Dómararnir voru á öðru máli greinilega,“ sagði Ágúst að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert