Stelpur með stærra hjarta en margar aðrar

Sigurður Bragason á hliðarlínunni í dag.
Sigurður Bragason á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Sigfús

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var mjög sáttur með eins marks sigur liðsins gegn Val í Vestmannaeyjum. Liðin áttust við í 3. umferð Olísdeildar kvenna, leiknum lauk 23:22. Sunna Jónsdóttir dró vagninn í leiknum fyrir heimaliðið og var frábær í vörn og sókn.

„Ég er í skýjunum, stoltur af stelpunum og allt þetta. Öll klisjuorðin sem ég get sagt og þetta er yndislegt. Ég lagði þetta þannig upp inn í klefa að ég vildi sjá hvert við værum komnar, erum við komnar í það að geta nartað í þessi lið sem ég hef grenjað yfir að við eigum ekki séns í. Stelpurnar svöruðu því og ég er ánægður með þær og klúbbinn minn. Þetta er samt bara einn leikur, við eigum eftir að mæta þeim tvisvar í vetur,“ sagði Sigurður eftir leikinn en það er ljóst að hann var mjög sáttur með leikinn og lífið.

„Þetta var geggjuð vörn, Harpa var frábær fyrir framan og er farin að spila þetta betur en allar aðrar. Sóknarleikurinn í seinni hálfleik var líka góður, Sunna Jónsdóttir á svo mikið skilið. Þetta er besti leikurinn sem ég hef verið með hana, ég hef verið með hana í þó nokkrum leikjum. Hún er á þeim stað sem Steinunn (Björnsdóttir) og Anna Úrsúla hafa verið, mér finnst hún bara best í deildinni.“

Valskonur fengu hraðaupphlaup í fyrri hálfleik en þau komu ekki í seinni.

„Auðvitað var það eitt af mínum leikplönum að stoppa það, það verður þannig í allan vetur. Ég er með stóra, sterka og þunga leikmenn við erum seinar til baka. Ég get þó alveg sagt öllum það að þær eru með stærra hjarta en margar aðrar, þær eru að rembast við að koma sér heim. Þær gerðu það frábærlega í seinni hálfleik, ég er stoltur af þeim og það þarf að keyra til baka á móti þessu liði.“

Útilína ÍBV er 67% ný og bættust þær Birna Berg Haraldsdóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir inn í hana fyrir tímabilið, þrír leikmenn útilínunnar eru með 41 skot af 48 skotum liðsins í leiknum.

„Það þarf enginn heimspeking í að sjá að við viljum nýta okkur þær, ég hef ekki haft og ekki mörg lið sem hafa þessar skyttur. Ég var ekki ósáttur við það hvernig þær voru að velja eða neitt, þær voru flottar,“ sagði Sigurður en hann aðspurður sagðist hann þó vilja nýta hornin og línuna betur.

„Við eigum það klárlega inni, við verðum að laga það. Ég er ekki með hægri hornamann, ég er ekkert að þykjast vera með hægri hornamann, ég er bara ekki með hann. Sandra Dís er að ná sér og Ásta Björt leysir þetta mjög vel. Nú erum við búnar að ná skyttunum inn, næst eru það hornamennirnir.“

Áhorfendatakmarkanir gilda á leikjum á vegum HSÍ, þeir áhorfendur sem létu sjá sig studdu heldur betur við bakið á liði ÍBV.

„Þetta var það sem mátti mæta, mér hefur þótt leiðinlegt í tvö ár með kvennaliðið að það sé ekki jafn góð stemning og á karlaleikjunum, þar sem allt er ógeðslega gaman. Það er að sýna sig núna að stemningin er góð og ég get alveg sagt ykkur það að ef ég fæ Hvítu Riddarana með okkur þá virkar það tvöfalt á stelpurnar á við strákana. Ég þakka fyrir mig, Helgi bróðir, pabbi og allir hinir, þetta var æðislegt,“ sagði Sigurður í sjöunda himni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert