Einleikarar sem stjórna ferðinni

Stefán Arnarson, ásamt leikmönnum sínum.
Stefán Arnarson, ásamt leikmönnum sínum. mbl.is/Þórir

Stefán Arnarson, þjálfari Fram í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, viðurkennir að það sé erfitt að skipuleggja næstu æfingar liðsins í ástandinu sem nú ríkir vegna kórónuveirufaraldursins.

Síðast var leikið í Olísdeild kvenna hinn 26. september síðastliðinn. HSÍ stefnir á að handboltinn byrji aftur að rúlla hinn 13. nóvember næstkomandi.

Framarar, líkt og önnur lið á höfuðborgarsvæðinu, mega æfa undir mjög ströngum takmörkunum en leikmenn liðsins mega sem dæmi ekki kasta bolta á milli sín.

Á meðan mega lið á borð við ÍBV og KA/Þór, sem starfa á landsbyggðinni, æfa án takmarkana.

„Þessar reglur virðast breytast frá degi til dags og það er eins og einhver ákveðin hentistefna sé í gangi með þetta allt saman,“ sagði Stefán í samtali við Morgunblaðið í gær. „Það er eins og það séu einhverjir þrír eða fjórir sem taka ákvarðanirnar og stjórna þessu; hvað má og hvað má ekki, og það er erfitt að skipuleggja sig í þannig aðstæðum.

Mér skilst að við megum æfa á morgun og getum þá annaðhvort hlaupið eða kastað bolta í vegg. Það segir sig sjálft að þau lið sem geta æft handbolta standa framar en þau sem mega ekki æfa eðlilega. Það er stór munur á formi og leikformi því það tekur tíma að komast í spilform. Það er hins vegar erfitt að segja eitthvað við þessu því svona er einfaldlega staðan í þessum veirufaraldri,“ sagði Stefán.

Undarleg rök

Þjálfaranum finnst afar undarlegt að íþróttafólki sé mismunað eftir íþróttagreinum en knattspyrnufólk má sem dæmi æfa með bolta á meðan handknattleiks- og körfuknattleiksfólk má það ekki.

„Mér finnst þetta mjög undarleg rök ef ég á að vera hreinskilinn. Íslandsmótið í handbolta er stoppað í mars og svo byrjum við aftur núna í haust. Aðrar íþróttir fara einnig af stað, til dæmis enska úrvalsdeildin, og fleiri íþróttagreinar í heiminum.

Það eru afar fá smit sem hafa komið upp sem hægt er að tengja beint við íþróttir. Þess vegna finnst manni sérstakt að það gildi sérreglur um ákveðnar íþróttagreinar og mér finnst vanta allan rökstuðning á bak við þær.

Viðtalið við Stefán í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert