Léku á als oddi í síðari hálfleik

Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir HK í dag.
Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir HK í dag.

HK-ingar unnu 33:21-stórsigur á FH í 4. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Ásvöllum í dag en heimakonur voru undir í hálfleik. Um var að ræða fyrsta leik liðanna síðan í september eftir að langt hlé var gert á Íslandsmótinu vegna kórónuveirunnar.

Mótið hófst aftur í dag eftir langt hlé en vegna strangra skilyrða um sóttvarnir eru til að mynda engir áhorfendur leyfðir fyrst um sinn. HK vann einn og tapaði tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum í haust en FH tapaði öllum sínum.

Heimakonur byrjuðu betur í dag og komust í 4:0-forystu eftir fimm mínútna leik en Hafnfirðingar færðu sig þá upp á skaftið og höfðu forystu í leikhléinu, 15:14. Emilía Ósk Steinarsdóttir var allt í öllu í leik FH, skoraði tíu mörk þar af átta í fyrri hálfleik. Eftir hlé sneri HK hins vegar taflinu algjörlega við og skoraði 19 mörk gegn sex og vann að lokum stórsigur, 33:21.

Díana Kristín Sigmarsdóttir var markahæst heimakvenna með sjö mörk úr 11 skotum en Sigríður Hauksdóttir og Kristín Guðmundsdóttir komu þar á eftir með sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert