Haukar afgreiddu HK undir lokin

Sara Odden í leik með Haukum á síðasta tímabili.
Sara Odden í leik með Haukum á síðasta tímabili. Árni Sæberg

Haukar unnu góðan 27:21 sigur gegn HK að Ásvöllum í Hafnarfirði í Olís-deild kvenna í handknattleik í dag. Leikurinn var hnífjafn framan en um miðjan síðari hálfleikinn náðu Haukastúlkur þriggja marka forystu og litu aldrei til baka eftir það.

Liðin skiptust á að skora í fyrri hálfleik og komust HK-stúlkur nokkrum sinnum einu marki yfir. Staðan í hálfleik var 11:11.

Eftir að HK minnkaði muninn í 17:16 um miðbik síðari hálfleiks varð ákveðinn vendipunktur. Haukastúlkur komust þá í 19:16 og hleyptu HK-stúlkum aldrei nær en tveimur mörkum. Eftir að HK minnkaði muninn í 20:18 sigldu Haukastúlkur fram úr HK-stúlkum og skoruðu sex mörk á móti tveimur, 26:20. Haukastúlkur kláruðu þá leikinn og unnu góðan sex marka sigur, 27:21.

Sara Odden var markahæst í liði Hauka með sjö mörk og gaf auk þess eina stoðsendingu. Karen Helga Díönudóttir var sömuleiðis drjúg og skoraði 5 mörk og gaf átta stoðsendingar. Berta Rut Harðardóttir skoraði einnig fimm mörk og gaf tvær stoðsendingar.

Í liði HK var Kristín Guðmundsdóttir markahæst með sex mörk, auk þess sem hún gaf eina stoðsendingu. Þá skoraði Tinna Sól Björgvinsdóttir fimm mörk fyrir HK.

Haukar fara með sigrinum upp fyrir HK í 6. sæti deildarinnar með fjögur stig að loknum fimm leikjum. HK er nú í 7. sætinu með tvö stig eftir sex leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert