Stýrðum þeirra sóknarleik vel

Úr leik ÍBV og Fram í dag.
Úr leik ÍBV og Fram í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn unnu tveggja marka sigur á Fram í ótrúlegum leik í dag þar sem einungis 36 mörk voru skoruð. Vörn Eyjamanna var virkilega góð og náðu Framarar einungis 29 skotum á mark heimamanna í Vestmannaeyjum.

„Vörn og markvarsla, við stöndum vörnina vel í dag og Petar var góður í markinu, það skilaði okkur tveimur mjög góðum stigum,“ sagði Kristinn Guðmundsson aðstoðarþjálfari ÍBV en hann var ekki í neinum vafa um það hvaða atriði voru mikilvægust í leik dagsins.

„Við vorum aðallega að undirbúa okkur almennt, það er erfitt að undirbúa sig fyrir eitthvað eitt ákveðið lið eftir svona langa pásu, við reyndum að sjálfsögðu að rýna í það við hvaða leikmenn við ættum að eiga við og skoðuðum það aðeins. Þessi leikur spilaðist ekkert ósvipað og við áttum von á, það hefur verið löng pása og við þunnskipaðari en við hefðum viljað vera. Þá þarf að vera klókari og lykilatriði að standa vörnina, það mæðir mikið á sömu leikmönnunum og við þurfum að vera flinkari í því að rótera meira þegar líður á.“

Eyjamenn sköpuðu sér þó helling af færum en færanýtingin var ekki upp á marga fiska, þá var Lárus Helgi Ólafsson frábær í marki gestanna.

„Við gefum Lárusi það að hann er góður markvörður, ef hann hefði varið 20 skot þá hefðum við unnið með 9. Það er alltaf hægt að segja svona, Basti getur farið í sama pakka með einhverja aðra hluti. Þetta gerist stundum, þegar markvörður er á eldi, þá fer allt að lokast meira og meira. Sjálfstraust leikmanna minnkar þegar þeir eru að taka skot úr ákveðnum stöðum, það er mannlegi þátturinn í þessu.“

Nokkrir leikmenn eru meiddir í liði Eyjamanna, Friðrik Hólm Jónsson, Sigtryggur Daði Rúnarsson og Ásgeir Snær Vignisson eru allir fjarri góðu gamni.

„Við vitum ekkert hversu langt er í Ásgeir, við munum ekki taka neinar áhættur með hann, sama með Friðrik, hann er alveg út enda sleit hann krossbönd og hjá honum tekur við endurhæfingarferli. Við fáum Sidda vonandi inn eftir einhverjar vikur, það væri voðalega huggulegt. Við vitum ekkert hvernig það þróast en þetta er hópurinn sem við erum með núna, plús Kári þegar hann kemur inn. Það verður gott að fá hann til baka,“ sagði Kristinn sem var virkilega ánægður með að ákveðið hafi verið að spila þennan leik og liðinu tekist að sækja tvö stig.

Kristinn sagði liðið hafa nýtt pásuna vel í lyftingar fyrir jól og svo hafi liðið farið að undirbúa sig fyrir boltann þegar leyfi fengust til þess. Hann viðurkenndi þó að hann hafi séð skemmtilegri handboltaleiki en þennan í dag.

„Þetta var engin sýning, ég er þó ekkert hrifinn af því þegar leikirnir fara 35:32, við vorum alla vega með stjórn á ákveðnum hlutum í dag. Við stýrðum þeirra sóknarleik vel og þrýstum þeim oft í erfiðar stöður, ég hefði verið mjög sáttur ef við hefðum nýtt fleiri færi og farið út úr þessum leik 25:17 eða eitthvað álíka. Við höfum oft skorað mikið af mörkum þannig það er allt í lagi kannski að draga inn einn sigur þar sem við erum í tómu basli sóknarlega en náum að loka þessu,“ sagði Kristinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert