„Gott að eiga góða úlpu“

Hergeir Grímsson
Hergeir Grímsson mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hlakkaði rosalega til að spila þennan leik. Við vorum búnir að vera hundlélegir síðustu leiki og vildum virkilega gera betur og vorum þess vegna mjög tilbúnir í leikinn,“ sagði Hergeir Grímsson, fyrirliði Selfoss, sem sigraði ÍBV 27:25 í Suðurlandsslag í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. 

„Enda spiluðum við eins og englar og það lögðu allir sitt af mörkum. Við fengum mörk og stoðsendingar úr öllum áttum og markvarslan var góð. Við vorum allir í takt og treystum hvor öðrum og þá er þetta bara flott. Það var mjög góður fílingur í þessu í dag,“ bætti Hergeir við.

Og það er kannski ekki skrítið að það hafi verið létt yfir fyrirliðanum enda fagnaði hann 24 ára afmæli í dag og segist hafa átt ótrúlega góðan dag.

„Dagurinn byrjaði snemma á góðum morgunmat og afmælisgjöf frá kærstunni, ég fékk mjög góða úlpu frá henni,“ segir Hergeir og hlær þegar hann er spurður að því hvort hann hafi langað meira í úlpu eða sigurleik gegn ÍBV þegar hann vaknaði í morgun.

„Það er gott að eiga góða úlpu en það er líka alltaf gaman að vinna ÍBV. Þetta eru langskemmtilegustu leikirnir og maður lifir fyrir þessa leiki. Ég man ekki eftir leik á móti ÍBV sem er ekki hörkuspennuleikur - það er allavega mjög langt síðan. Þetta réðist í lokin í kvöld eins og við var að búast. Það var líka geggjað að fá fólk í húsið. Það var ekkert eðlilega gott þegar við vorum tveimur mörkum undir að heyra „áfram Selfoss“ úr stúkunni. Það gefur okkur 100% meiri kraft,“ sagði Hergeir sáttur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert