Sigurmark Selfyssinga kom í blálokin

Selfoss og Stjarnan eigast við í kvöld.
Selfoss og Stjarnan eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfoss vann 29:28 sigur á Stjörnunni í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Selfoss hafði frumkvæðið lengst af en lokamínúturnar voru æsispennandi.

Strax í upphitun urðu Selfyssingar fyrir áfalli þegar Guðmundur Hólmar Helgason meiddist og kom hann ekkert við sögu í leiknum. Íslandsmeistararnir þjöppuðu sér saman og Magnús Öder Einarsson fékk stórt hlutverk í leiknum, sem hann leysti vel.

Selfyssingar náðu þriggja marka forskoti strax í upphafi leiks, 4:1. Þeir héldu forystunni allan fyrri hálfleikinn og stóðu af sér öll áhlaup Stjörnunnar. Gestirnir náðu þrívegis að minnka muninn í eitt mark en nær komust þeir ekki á fyrstu þrjátíu mínútum leiksins. Staðan var 16:14 í hálfleik.

Stjarnan skoraði þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og náði þar með forystunni í fyrsta skipti. Selfyssingar voru fljótir að svara fyrir sig og ná aftur þriggja marka forskoti en á síðustu tíu mínútunum fóru leikar að æsast. Stjörnumenn þjörmuðu verulega að Selfyssingum á lokakaflanum og þeir náðu að jafna, 27:27, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. 

Lokamínútan var ekki fyrir hjartveika, Selfyssingar voru skrefinu á undan og tóku leikhlé þegar 28 sekúndur voru eftir í stöðunni 28:28. Ragnar Jóhannsson skoraði frábært mark þegar níu sekúndur voru eftir og Selfyssingum tókst að verjast lokasókn Stjörnunnar.

Ragnar Jóhannsson var frábær fyrir Selfyssinga í seinni hálfleik og hann lauk leik markahæstur með 7 mörk. Hergeir Grímsson kom næstur honum með 6/2 en Hergeir átti einnig frábæran dag í vörninni. Vilius Rasimas átti góðan leik í marki Selfoss og varði 16 skot.

Hjá Stjörnunni var Starri Friðriksson markahæstur með 7 mörk og Tandri Már Konráðsson skoraði 6. Adam Thorstensen var traustur í marki Stjörnunnar með 14 skot varin.

Selfoss er nú í 3. sæti deildarinnar með 15 stig en Stjarnan er í 8. sæti með 12 stig.

Mbl.is var í Hleðsluhöllinni í kvöld og má sjá textalýsingu frá leiknum hér að neðan.

Selfoss 29:28 Stjarnan opna loka
60. mín. Hergeir Grímsson (Selfoss) skoraði mark Lúmskt skot eftir langa sókn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert