Spilar líklega ekki meir á tímabilinu

Guðmundur Hólmar Helgason í leik gegn Haukum á dögunum.
Guðmundur Hólmar Helgason í leik gegn Haukum á dögunum. mbl.is/Árni Sæberg

Selfyssingurinn Guðmundur Hólmar Helgason hefur að öllum líkindum lokið leik á Íslandsmótinu í handknattleik á tímabilinu.

Þetta staðfesti hann í samtali við Vísir.is en það bendir allt til þess að Guðmundur sé með slitna hásin eftir að hafa meiðst í upphitun gegn Stjörnunni í Olísdeildinni á Selfossi í gær.

Guðmundur, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við Selfoss frá West Wien síðasta sumar en hann er uppalinn á Akureyri.

Hann hefur verið einn besti leikmaður Selfoss á tímabilinu en hann hefur skorað 4,3 mörk að meðaltali í tólf leikjum með Selfossliðinu í vetur.

Ég er ekki búinn að fara í skoðun á sjúkrahúsi eða neitt slíkt en Örnólfur bæklunarlæknir kom og kíkti á mig í gær,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi.

„Hann var á leið í gegnum Selfoss og Jóndi [Jón Birgir Guðmundsson] sjúkraþjálfari hringdi í hann til að fá álit. Hann kíkti á mig og staðfesti það sem Jóndi sagði, að hásinin í vinstri fæti hefði slitnað.

Þetta eru einhverjir mánuðir. Að öllum líkindum horfir maður bara á næsta tímabil. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn er ég rosalega sár og svekktur. Að lenda í þessu núna er mjög súrt og svekkjandi. Þetta var mjög erfið nótt,“ bætti Guðmundur við í samtali við Vísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert