„Gerum okkur stig að góðu“ 

Andri Snær Stefánsson ræðir við sitt lið í dag.
Andri Snær Stefánsson ræðir við sitt lið í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Lið KA/Þórs situr nú eitt á toppnum í Olís-deild kvenna í handbolta eftir leiki dagsins. Lið Akureyringa gerði jafntefli við Hauka í dag og kom sér stigi upp fyrir Fram, sem tapaði fyrir ÍBV.  

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, er mjög jákvæður maður og hann var bara hress eftir leik. 

„Það voru sveiflur í þessum leik og við bara ekki að skila okkar í vörninni. Tilfinningin er skrýtin eftir leikinn. Við vorum ekki að spila vel og bara ekki góðar í vörninni, nánast allan leikinn og með mjög litla markvörslu. Það bara vantaði allan leikinn. Ég tek ekkert af Haukaliðinu sem barðist fyrir sínu og með nokkrar ungar stelpur sem spiluðu vel.

Úr því sem komið var undir lokin þá bara tökum við þetta stig. Við náðum að jafna í okkar síðustu sókn og stoppa svo Haukana, manni færri, þannig að við gerum okkur stig að góðu. Þetta leit, þannig séð, ekki vel út en Ásdís náði að klára færið sitt og svo náði Matea að koma við boltann í lokaskoti Hauka og boltinn fór í stöngina.

Engu að síður þá erum við komin með þriggja marka forskot þegar tólf, þrettán mínútur eru eftir og það svíður sárt hvernig við glutruðum því niður á mjög stuttum tíma. Það er bara vont þegar vörnin og markverðirnir ná ekki taktinum og þá er bara erfitt fyrir okkur að vinna leikina. Sem betur fer þá náðum við að skora nóg á móti. Nú skoðum við bara hvað klikkaði í dag og þurfum að taka það með okkur í næsta leik á miðvikudaginn, gegn HK,“ sagði þjálfarinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert