Tileinka Gunnari Karli sigurinn

Leikmenn ÍBV fagna sætum sigri í dag.
Leikmenn ÍBV fagna sætum sigri í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sunna Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, var virkilega ánægð með sigur liðsins gegn Fram í 11. umferð Olísdeildar kvenna. Fram hafði unnið níu síðustu leiki sína gegn ÍBV og freistaði þess að vinna þann tíunda í röð í dag.

„Þetta var geggjaður sigur, ég er ótrúlega stolt af liðinu, við erum búnar að vera í jöfnum leikjum í allan vetur. Deildin er einnig jöfn og skemmtileg, það var því geggjað að klára þennan leik,“ sagði Sunna en hún var ekki í neinum vafa um það hvað hefði unnið leikinn fyrir liðið.

„Það var vörn og markvarsla sem skóp þennan sigur, við leystum sóknarleikinn einnig nokkuð vel, við vorum rólegar á boltann og fundum færin. Við létum hann ganga betur en við höfum verið að gera.“

ÍBV spilaði frekar hægan sóknarleik, alla vega ef hann er borinn saman við sóknarleik Framara sem var virkilega hraður.

„Við reynum að halda mistökunum niðri,“ sagði Sunna eftir að hún spurði hvort þær væru virkilega svona hægar.

„Fram vilja spila góða vörn og keyra, keyra, keyra. Það er kannski þess vegna sem við hægðum á, síðan kemur hraðinn þegar við verðum öruggari.“

ÍBV hefur tapað níu leikjum í röð á móti Fram og náði loksins að sigra í dag.

„Loksins náðum við því, þetta er vonandi það sem koma skal. Fram er búið að vera á toppnum undanfarin ár en við förum auðvitað í hvern leik til þess að vinna sama hvort það er Fram eða FH eða hvað sem er.“

ÍBV vann Val í síðustu umferð og nú Fram, liðið lítur vel út fyrir úrslitakeppnina. „Þetta er nú bara deildin og það er enn þá mars, við erum bara rólegar yfir þessu. Við ætlum að toppa í maí vonandi, við ætlum að bæta okkur hægt og þétt sem lið fram að því.“

Bikarinn er á næsta leiti hjá ÍBV og er Sunna spennt fyrir því verkefni líka. „Við erum mjög spenntar fyrir því, fyrsta árið mitt hérna fórum við í Final 4 og það var ógeðslega gaman. Við misstum af því í fyrra og stefnan í ár í bikarnum er að komast alla vega í Final 4.“

Sunna tók fram að liðið vildi tileinka Gunnari Karli Haraldssyni sigurinn en hann er Eyjamaður sem féll frá aðeins 26 ára að aldri síðastliðinn sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert