Sneri aftur eftir þriggja mánaða fjarveru

Bjarni Ófeigur Valdimarsson í leik með FH á á síðasta …
Bjarni Ófeigur Valdimarsson í leik með FH á á síðasta tímabili. Eggert Jóhannesson

Vinstri skyttan Bjarni Ófeigur Valdimarsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Skövde í þrjá mánuði þegar liðið vann auðveldan átta marka sigur, 32:24, gegn Alingsås í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær.

Um var að ræða síðasta leik deildarkeppninnar og tryggði Skövde sér þar með fjórða sætið í deildinni á kostnað Alingsås, sem endar í fimmta sæti. Þar sem átta efstu lið deildarinnar fara áfram í umspilið um meistaratitilinn munu Skövde og Alingsås mætast í úrslitakeppninni, sem byrjar 17. mars.

Bjarni Ófeigur, sem skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu í leiknum, kvaðst nokkuð ryðgaður í fyrsta leik sínum í langan tíma.

„Ég var pínu ryðgaður enda þrír mánuðir síðan ég spilaði síðast og svo að segja nýbyrjaður að æfa aftur með liðinu,“ sagði Bjarni Ófeigur, sem er einnig öflugur varnarmaður, í samtali við Handbolta.is í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert