„Sagt að ég megi ekki tjá mig um það framar“

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir spilaði sinn fyrsta landsleik í sex ár …
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir spilaði sinn fyrsta landsleik í sex ár í kvöld. Eggert Jóhannesson

Línu- og varnarmaðurinn öflugi Anna Úrsúla Guðmundsdóttir sneri aftur í íslenska kvennalandsliðið í handknattleik þegar hún lék í 21:21 jafntefli gegn Slóveníu á Ásvöllum í síðari leik liðanna í umspili um sæti á HM 2022 í kvöld.

„Ég var rosalega ánægð með ákefðina hjá okkur og hvað við lögðum okkur allar fram í 60 mínútur, þó að þetta hafi verið aðeins kaflaskiptur leikur en það er kannski bara eðlilegt.

Ég held að þetta sé leikur til þess að byggja ofan á. Slóvenía er topplið og er búið að vera að saxa á efstu liðin í heiminum. Við verðum bara að byggja ofan á þetta, ekkert annað,“ sagði Anna Úrsúla í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Í heild var varnarleikur íslenska liðsins mjög góður í leiknum en erfiðlega gekk þó að ráða við Tjösu Stanko, vinstriskyttu Slóvena, sem skoraði átta af 21 marki gestanna. „Auðvitað er rosalega svekkjandi að missa einhvern fram úr sér sem var búið að tala um að mætti ekki gerast en mistök gerast bara eins og í lífinu. Maður þarf bara að læra af því.

Auðvitað var eitthvað sem klikkaði í vörninni og svo voru einhverjir boltar í sókn sem við hefðum getað klárað betur, færi það er að segja. Það er alltaf hægt að segja það held ég, sama hvort maður vinnur eða tapar,“ bætti hún við.

Anna Úrsúla sagði á dögunum í samtali við Morgunblaðið að þegar hún var valin í æfingahópinn fyrir leikina tvo gegn Slóveníu hafi hún ekki endilega verið að búast við því að vera valin í landsliðshópinn, enda aðeins búin að spila tvo leiki með Val í Olísdeildinni á tímabilinu eftir að hafa tekið skóna fram að nýju á árinu eftir um tveggja ára hlé. Anna Úrsúla var þó að lokum valin í hópinn fyrir síðari leikinn í kvöld.

Fyrsti landsleikurinn í sex ár

„Þetta er náttúrlega bara mjög spes. Mér fannst mjög áhugavert að þeir héldu að ég gæti hjálpað, búin að spila tvo leiki og allt þetta. En mér fannst bara ótrúlega gaman að taka þátt í þessu með stelpunum, að vera valin aftur og fá að spila landsleik.

Ég var ekki búin að vera valin í um sex ár þannig að mér fannst þetta bara hrós jafnvel þó að auðvitað væru aðstæðurnar þannig að það þyrfti einhvern sérstakan sem gæti hentað þessari stöðu og ég var bara heppin að ég var sá einstaklingur,“ sagði hún.

Anna Úrsúla virðist engu hafa gleymt og lék vel bæði í vörn og sókn. Í sókninni skoraði hún þrjú mörk af línunni og fiskaði tvö vítaköst. Aðspurð hvað henni þótti um eigin frammistöðu sagði Anna Úrsúla:

„Ég er allavega ekki svekkt. Ég hugsaði að ég þyrfti að ganga frá þessu þannig að ég yrði ekki miður mín yfir því að ég væri alveg ömurleg. Þannig að mér fannst þetta ganga ágætlega.“

Að lokum var hún spurð hvort hún hygðist halda áfram þegar yfirstandandi leiktímabili er lokið með Val. „Mér er sagt að ég megi ekki tjá mig um það framar! Við sjáum bara til, er það ekki?“ sagði Anna Úrsúla og hló við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert