„Það er hægt að afsaka sig með öllu“

Ragnar Jóhannsson, leikmaður Selfoss.
Ragnar Jóhannsson, leikmaður Selfoss. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Eftir fyrstu tíu mínúturnar þá var þetta virkilega flott. Vörnin small og við vorum mjög agaðir. Flottur sigur,“ sagði Ragnar Jóhannsson, leikmaður Selfoss, eftir 27:23 sigur á FH í Olísdeild karla í handbolta.

„Við vorum staðir sóknarlega í upphafi og vorum að skjóta illa. Hann varði allt frá okkur. Við fórum að skjóta betur og velja betri kosti í sókninni og þá fór þetta að ganga mun betur.“

Staðan var 14:12 í leikhléi og leikurinn var í nokkuð öruggum höndum Selfyssinga í seinni hálfleik.

„Já, það gekk allt upp. Ég var líka ánægður með ungu strákana sem komu inná. Þeir leystu þetta virkilega vel og þetta lofar góðu ef við höldum svona áfram. Ísak [Gústafsson] átti frábæran leik og Elvar [Hallgrímsson] sömuleiðis í vörninni. Villi [Rasimas] er líka alltaf stabíll í markinu með sína tíu bolta og ef hann fær góða vörn fyrir framan sig þá bætir hann bara í. Við vorum þéttir og það var það sem skilaði þessu,“ sagði Ragnar ennfremur.

Selfoss tapaði fyrir Fram á útivelli í 1. umferðinni, nýkomnir heim úr löngu keppnisferðalagi til Tékklands. Voru menn þreyttir eftir heimkomuna?

„Sko, það er hægt að afsaka sig með öllu. Ferðaþreytu og æfðum illa. Við vorum bara ekki klárir í bardaga í síðasta leik og þá fær maður á baukinn. En við náðum að stilla okkur af í framhaldinu og undirbúa okkur vel fyrir leikinn í kvöld og það skilaði sér,“ sagði Ragnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert