Uppsögnin kom Guðmundi á óvart

Guðmundur Þ. Guðmundsson lét af störfum í Þýskalandi á dögunum.
Guðmundur Þ. Guðmundsson lét af störfum í Þýskalandi á dögunum. AFP

„Þetta kom mér á óvart,“ sagði landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson um viðskilnað sinn við þýska handknattleiksfélagið Melsungen í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun í dag.

Guðmundi var sagt upp störfum í Þýskalandi 20. september síðastliðinn en í tilkynningu þýska félagsins kom meðal annars fram að gengi liðsins undir stjórn Guðmundar hefði valdið vonbrigðum.

Landsliðsþjálfarinn var hins vegar ekki lengi að finna sér annað starf og mun hann stýra liði Frederica í dönsku úrvalsdeildinni frá og með næsta tímabili.

„Ég tek við liðinu í febrúar í fyrra, við förum vel af stað og vinnum fyrstu tvo leikina. Kórónuveirufaraldurinn setti hins vegar stórt strik í reikninginn og við vorum meira og minna í einangrun vegna hennar allt tímabilið,“ sagði Guðmundur.

„Þetta eyðilagði í raun tímabilið fyrir okkur fannst mér en engu að síður komumst við í úrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn í sögu félagsins sem var skref upp á við fyrir félagið. Mér var falið að byggja upp liðið og breyta því en allt á eins árs samningi um sinn.

Það er ekki auðvelt að vera í slíkri stöðu, að þurfa gera umtalsverðar breytingar á frekar stuttum tíma. Til samanburðar var gerður við mig fimm ára samningur hjá Rhein-Neckar Löwen og þar var verið að segja við mig og aðra að ég væri þjálfarinn sem ætti að treysta á næstu árin. Það var ekki þannig hjá Melsungen en þannig er það bara.

Við vorum bara búnir að spila þrjá leiki þegar Melsungen ákveður að slíta samstarfinu. Á sama tíma fékk ég mjög áhugavert tilboð frá Danmörku sem ég ákvað að tilkynna forráðamönnum þýska félagsins um. Þegar upp var staðið virðist það hafa farið illa í þá en það er bara þannig í þessum bransa að maður þarf alltaf að plana fram í tímann,“ sagði Guðmundur meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert