Tíu lið leika um heimsbikarinn

Ómar Ingi Magnússon og félagar í Magdeburg hefja leik i …
Ómar Ingi Magnússon og félagar í Magdeburg hefja leik i heimsbikarnum í dag. Ljósmynd/Instagramsíða Magdeburg

Íslendingaliðin Magdeburg og Aalborg taka þátt í heimsbikarkeppni félagsliða karla í handknattleik sem hefst í Jeddah í Sádi-Arabíu í dag. Þar leika tíu lið úr öllum heimsálfum um heimsbikarinn, eða Super Globe.

Magdeburg, Aalborg og Barcelona eru fulltrúar Evrópu, Al Duhail frá Katar er fulltrúi Asíu, Zamalek frá Egyptalandi er fulltrúi Afríku, San Francisco CalHeat frá Bandaríkjunum er fulltrúi Norður-Ameríku og Karíbahafsins, Pinheiros frá Brasilíu er fulltrúi Suður- og Mið-Ameríku og Sydney University frá Ástralíu fulltrúi Eyjaálfu. Þá eru tvö sádiarabísk lið með sem gestgjafar, Al Wehda og Al-Noor.

Magdeburg mætir Sydney University í fyrstu umferð í dag og Al Wehda mætir San Francisco.

Í 8-liða úrslitum á morgun leikur Magdeburg eða Sydney við Al Duhail, Aalborg mætir Al Wehda eða San Francisco, Pinheiros mætir Al-Noor og Barcelona mætir Zamalek.

Undanúrslitin eru leikin á fimmtudag og þar myndu Magdeborg og Aalborg mætast ef þau vinna sína leiki. Síðan fara úrslitaleikir um fyrsta og þriðja sætið fram á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert