Strangar reglur settar fyrir EM

Domagoj Duvnjak greindist með veiruna í dag og því missir …
Domagoj Duvnjak greindist með veiruna í dag og því missir hann væntanlega af fyrstu leikum Króata á EM. AFP

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, tilkynnti í dag að leikmenn sem smitast af kórónuveirunni þurfi að bíða í fjórtán daga þar til þeim verði veitt heimild til að taka þátt í leikjum Evrópumóts karla sem hefst í Ungverjalandi og Slóvakíu 13. janúar.

Aftonbladet í Svíþjóð segir frá þessu og hefur eftir Glenn Solberg og Martin Boquist, þjálfara  og aðstoðarþjálfara sænska liðsins, að það geti reynst afar erfitt að vinna eftir þessum nýju reglum.

„Ef þú greinist smitaður eftir að þú kemur á keppnisstað ertu úr leik á mótinu," segir Boquist við Aftonbladet en mörg landsliða Evrópu sem eru á leið á mótið hafa glímt við mörg smit í sínum leikmannahópum að undanförnu. Íslenski hópurinn hefur ekki verið undanskilinn því en Frakkar, Svíar, Danir, Króatar, Svartfellingar, Slóvenar og Serbar hafa m.a. misst nokkuð af leikmönnum í einangrun síðustu daga.

Í dag var m.a. tilkynnt að tveir bestu menn Króata, þeir Domagoj Duvnjak og Luka Cindric, hefðu greinst jákvæðir.

„Þessi fjórtán daga regla er mjög ströng og mun gera mörgum erfitt fyrir. Ef þú greinist smitaður í dag missir þú af leikjunum þremur í riðlakeppninni. Við verðum bara að krossa fingur og reyna að gera okkar besta úr því sem við ráðum við," segir Solberg og efast um að EHF geti haldið fjórtán daga reglunni til streitu því almennt er nú miðað við sjö til tíu daga.

„Við teljum að þetta geti ekki virkað. Við vitum að margar þjóðir eiga í vandræðum og það getur reynst erfitt fyrir EHF að standa á þessum fjórtán dögum. En kannski hafa yfirvöld í Ungverjalandi og Slóvakíu sett á þá pressu, maður veit það ekki," segir Boquist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert