Fresta vináttulandsleik vegna veirunnar

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins.
Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins. AFP

Vináttulandsleik Noregs og Danmerkur í handknattleik karla sem fara átti fram í Danmörku í dag hefur verið frestað fram á laugardag vegna kórónuveirusmita í herbúðum danska liðsins. Norska handknattleikssambandið greindi frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Leikurinn var hluti af undirbúningi liðanna fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst 13. janúar og fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Markvörður danska liðsins, Jannick Green, greindist með veiruna á dögunum og er nú í einangrun en vegna heimsfaraldursins vilja liðin ekki taka neina áhættu rétt fyrir lokakeppni EM.

Leikmenn og starfslið beggja lið verða prófaðir reglulega í dag og á morgun og ef allir skila neikvæðum niðurstöðum stefna liðin á að mætast í vináttulandsleik á laugardaginn.

Fari svo að leikmenn muni greinast með veiruna á næstu dögum munu þeir missa af riðlakeppni EM hið minnsta þar sem reglur evrópska handknattleikssambandið kveða á um að leikmenn megi ekki spila á mótinu fyrr en fjórtán dögum eftir að þeir greinast.

Danir leika A-riðli EM ásamt Slóveníu, Norður-Makedóníu og Svartfjallalandi en Norðmenn í F-riðli ásamt Rússlandi, Slóvakíu og Litháen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert