Eyjakonur í góðri stöðu fyrir seinni leikinn

Harpa Valey Gylfadóttir sækir að marki Sokol Pisek í dag.
Harpa Valey Gylfadóttir sækir að marki Sokol Pisek í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann sterkan sigur gegn Sokol Pisek frá Tékklandi í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í dag. Lokatölur 27:20 en ÍBV, sem var útiliðið í dag, leiddi allan leikinn.

Báðir leikirnir fara fram í Vestmannaeyjum og verður flautað til leiks í síðari leiknum, heimaleik ÍBV, klukkan 13 á morgun.

Staðan í hálfleik var 13:7 en samt höfðu leikmenn ÍBV klikkað á fjórum hraðaupphlaupum auk annarra góðra marktækifæra. Í upphafi seinni hálfleiks náði ÍBV að auka forskotið og varð munurinn mestur níu mörk.

Tékkarnir tóku þá við sér og áttu góðan kafla, þeim tókst að minnka muninn í fjögur mörk eftir að liðið skipti um varnarleik. Nær komust þær ekki og góður lokakafli Vestmannaeyinga gerði það að verkum að liðið hefur sjö marka forskot fyrir seinni leikinn.

Hornamenn ÍBV, Harpa Valey Gylfadóttir og Lina Cardell, voru markahæstar með sex mörk hvor en það var Marta Wawrzynkowska sem var maður leiksins með sautján skot varin í marki ÍBV.

Sokol Pisek 20:27 ÍBV opna loka
60. mín. Jana Chlupová (Sokol Pisek) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert