Þær voru betri en ég hélt

Sunna Jónsdóttir sækir að vörn Sokol Pisek í dag.
Sunna Jónsdóttir sækir að vörn Sokol Pisek í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, viðurkenndi að tékkneska liðið Sokol Pisek hafi verið sterkara en hann átti von á í dag. ÍBV vann 20:27 sigur en liðið leiddi mest með níu marka mun í síðari hálfleik.

„Varnarleikurinn okkar var betri en þeirra framan af, markvarslan líka. Mér fannst við líka tæknilega betri, ef ég á að vera hreinskilinn.“

ÍBV kom sér í níu marka forskot í seinni hálfleik en Tékkunum tókst að minnka það niður í fjögur á stuttum tíma.

„Þær breyttu um vörn og fóru í þessa 3-3 Alsír vörn, það kom okkur á óvart og þær spiluðu það flott. Við spiluðum illa á þeim tíma og það kom smá stress, þar sem við brenndum af dauðafærum. Ég hef séð þetta gerast áður en við í þjálfarateyminu brugðumst við og settum í tvær línur, þá leystum við það. Þetta er ekki sniðugt í Evrópukeppninni, að missa svona niður forystu, við getum alveg séð sjö mörk sveiflast til og frá. Ég tek sjö marka sigurinn allan daginn samt,“ sagði Sigurður en liðið tapaði fyrsta leik sínum í Evrópukeppninni úti í Grikklandi með fimm marka mun og vann þann seinni með sjö mörkum.

Sigurður Bragason kemur skilaboðum áleiðis í dag.
Sigurður Bragason kemur skilaboðum áleiðis í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Leikmenn ÍBV fóru ekki vel með dauðafærin í leiknum í dag og klikkuðu á þó nokkrum línufærum og hraðaupphlaupum.

„Elísa er meidd og að koma úr mjög alvarlegum meiðslum á öxl, hún vildi koma útaf en ég leyfði henni það ekki. Hún er ung og getur ekki beitt sér að fullu, hún er vanalega með mjög góða nýtingu. Það var þó ekki bara hún, það voru fleiri sem brenndu af dauðafærum og hraðaupphlaupum. Þetta eru mörkin sem við verðum að fá, við verðum að nýta þessi færi en hún var einnig ágæt í markinu hjá þeim. Það má ekki taka það af henni.“

„Ég get alveg trúað því, að þær taki sénsinn á því að gera þetta að leik með þessari vörn sinni. Þetta kostar mikla orku og skiljanlega er ekki hægt að vera í þessari vörn allan tímann, ég vona þó að við séum komnar með svar, með því að henda tveimur línum inn. Þær ná ekki að leysa 3-3 vörnina með tvær línur, þær refsa okkur ekki til baka heldur,“ sagði Sigurður spurður út í varnarleik Tékkanna og hvort að þær munu reyna að sprengja upp leikinn í byrjun leiks á morgun.

Sigurður segist ekki hafa reiknað með liðinu svona sterku. „Þær voru betri en ég hélt, besti leikmaðurinn þeirra er uppi í stúku, en hjá okkur er Birna uppi í stúku og Hanna ekki klár. Mér fannst þær betri en ég átti von á, ég held samt að við séum betri og það er það sem við þurfum að einblína á. Ef við spilum okkar leik þá vinnum við þær,“ sagði Sigurður en Tereza Pokorna er markahæsti leikmaður tékkneska liðsins og lék ekki með í dag. Þá er Birna Berg Haraldsdóttir enn fjarri góðu gamni sem og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir en þær hafa ekkert leikið með ÍBV á tímabilinu.

ÍBV hefur eins og áður segir verið í slæmri stöðu eftir fyrri leik í Evrópukeppninni og ættu því að vita að allt getur gerst.

„Ég veit að þær komu með Herjólfi í fyrradag og voru sjóveikar, þær tæmdu alveg tankinn og þó að þær hafi geta æft í gær þá er orkustigið ekki alveg ákjósanlegt. Mér fannst þær í síðari hlutanum vera komnar á allt annað orkulevel, þetta er alls ekki búið og stelpurnar vita það að þetta verður hörkuleikur á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert