ÍBV í 8-liða úrslit Evrópubikarsins

Marija Jovanovic átti stórleik fyrir ÍBV í dag.
Marija Jovanovic átti stórleik fyrir ÍBV í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Evrópubikarsins í handknattleik í dag er liðið vann Sokol Pisek öðru sinni á tveimur dögum. Leiknum í dag lauk með 33:29 sigri en samtals fór einvígið 60:49 ÍBV í vil.

Marija Jovanovic var markahæst í dag með átta mörk en þær Harpa Valey Gylfadóttir og Lina Cardell komu næstar með sjö og sex mörk.

Leikmenn ÍBV byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust þremur mörkum yfir eftir nokkrar mínútur, það fór mikið í taugarnar á gestunum sem tóku strax leikhlé til að missa leikinn ekki frá sér.

Mestur var munurinn sjö mörk í fyrri hálfleik en leikmenn ÍBV léku virkilega vel og nýttu dauðafærin sín betur en þær gerðu í gær. Erfiður kafli mætti þó þegar fór að líða á fyrri hálfleikinn þegar liðið tapaði boltanum fjórar sóknir í röð og tókst gestunum að refsa í þrígang.

Hægt og bítandi tókst gestunum að minnka muninn í eitt mark og var staðan 16:15 í hálfleik. Í hálfleik afhenti handknattleiksdeild ÍBV, Krabbavörn í Vestmannaeyjum ágóðann af Stjörnuleiknum, sem fór fram í desember. Þar söfnuðust 1.750.000 kr. sem munu eflaust nýtast Krabbavörn vel.

Leikmenn ÍBV settu fótinn niður í upphafi síðari hálfleiks og náðu aftur að auka forskotið verulega með glimrandi sóknarleik. Erla Rós Sigmarsdóttir mætti einnig í mark ÍBV og lék vel, en hún fékk ekkert að spila fyrstu 90 mínútur einvígisins. Marta Wawrzynkowska átti stórleik í marki ÍBV fram að því og varði hún hátt í tuttugu skot í einvíginu.

Marija Jovanovic skoraði eins og áður segir flest mörk ÍBV en hún gerði þó fimm þeirra af vítalínunni, hún var í eldlínunni með Serbíu á heimsmeistaramótinu í desember og því þurfti að fresta nokkrum leikjum ÍBV.

Allir leikmenn ÍBV fengu að spila hlutverk í leiknum í bæði fyrri og seinni hálfleik og eru þær því reynslunni ríkari eftir verkefnið.

ÍBV 33:29 Sokol Pisek opna loka
60. mín. Kristýna Kubisová (Sokol Pisek) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert