Frábær sigur Stjörnunnar í Úlfarsárdal

Stjörnumaðurinn Gunnar Steinn Jónsson sækir að marki Fram í leiknum …
Stjörnumaðurinn Gunnar Steinn Jónsson sækir að marki Fram í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Stjarnan vann gífurlega sterkan þriggja marka útisigur á Fram í Olís-deild karla í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld. Lokatölur voru 32:29 Stjörnunni í vil. 

Stjarnan var með yfirhöndina í byrjun leiks en Fram svaraði fljótt og jafnaði metin. Eftir það var jafnræði á milli liðanna er leið á fyrri hálfleikinn en á lokamínútunni skoraði Stjarnan tvö mörk og leiddi 16:14 í hálfleik. 

Stjörnumenn komu beittari út í síðari hálfleikinn og voru komnir sex mörkum yfir, 25:19, þegar 20. mínútur voru eftir. Fram kom sér svo hægt og rólega aftur inn í leikinn sem varð mjög spennandi á síðustu tíu mínútunum.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum voru Stjörnumenn sterkari og Framarar náðu ekki að setja mark. Leiknum lauk því með þriggja marka sigri Garðbæinga. 

Stjörnumaðurinn Tandri Már Konráðsson var markahæstur allra með átta mörk. Á eftir honum kom liðsfélagi hans Þórður Tandri Ágústsson með sex mörk. Framararnir Reynir Þór Stefánsson og Stefán Darri Þórsson settu fimm mörk og voru markahæstir í liði Fram. 

Adam Thorstensen var einnig mikilvægur í liði Stjörnunnar en hann varði 14 skot í leiknum.

Með sigrinum jafnaði Stjarnan Fram að stigum. Bæði lið eru með 13 stig í fimmta og sjötta sætinu. 

Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson, Stefán Darri Þórsson - 5. Marko Corcic, Ólafur Brim Stefánsson - 4. Stefán Orri Arnalds, Luka Vukicevic, Breki Dagsson, Alexander Már Egan, Ívar Logi Styrmisson - 2. Kristófer Dagur Sigurðsson - 1. 

Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson - 8. Arnór Máni Daðason - 0. 

Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson - 8. Þórður Tandri Ágústsson  6. Arnar Freyr Ársælsson - 5. Hergeir Grímsson - 4. Gunnar Steinn Jónsson, Pétur Árni Hauksson - 3. Leó Snær Pétursson - 2. Brynjar Hólm Grétarsson - 1. 

Varin skot: Adam Thorstensen - 14. Arnór Freyr Stefánsson - 0. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert