Naumur sigur Selfoss í markalitlum leik

Einar Sverrisson skoraði sex mörk fyrir Selfoss gegn Gróttu í …
Einar Sverrisson skoraði sex mörk fyrir Selfoss gegn Gróttu í dag. mbl.is/Unnur Karen

Selfoss vann tveggja marka útisigur á Gróttu í Olís-deild karla í handknattleik í Hertz-höllinni í kvöld. Lokatölur voru 20:18, Selfossi í vil. 

Jafnræði var á milli liðanna allan fyrri hálfleikinn og það voru skoruð afskaplega fá mörk, aðeins 14 talsins. Hálfleikstölur voru 7:7. 

Selfyssingar byrjuðu síðari hálfleikinn betur og náðu 3:0-kafla á upphafsmínútum hans. Gróttuliðið var þó fljótt að svara fyrir það og jafnaði metin í 11:11 þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum. 

Þá jók Selfoss forystu sína aftur og náði fimm marka forystu, 18:13, þegar aðeins sex mínútur voru eftir. Gróttumenn svöruðu aftur fyrir það og minnkuðu muninn í minnst eitt mark. Forskotið var þó of mikið og Selfoss kláraði leikinn betur og sigldi 20:18-sigri heim. 

Einar Sverrisson, í liði Selfoss, var markahæstur í leiknum með sex mörk. Þar á eftir komu samherjar hans Sigurður Snær Sigurjónsson og Karolis Stropus og Gróttumaðurinn Birgir Steinn Jónsson með fjögur.

Markverðirnir stóðu vaktina vel. Einar Baldvin Baldvinsson í liði Gróttu varði 14 skot og Vilius Rasimas einu minna í liði Selfoss. 

Þessi úrslit þýða að Selfoss er með 11 stig í sjöunda sæti. Grótta er með átta, sæti neðar. 

Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson - 4. Daníel Örn Griffin, Ágúst Emil Grétarsson, Hannes Grimm - 3. Jakob Ingi Stefánsson, Lúðvík Thorberg Arnkelsson - 2. Theis Koch Sondergard - 1. 

Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson - 14. 

Mörk Selfoss: Einar Sverrisson - 6.  Sigurður Snær Sigurjónsson, Karolis Stropus -4. Ísak Gústafsson, Sæþór Atlason - 2. Tryggvi Sigurberg Traustason, Sölvi Svavarsson - 1. 

Varin skot: Vilius Rasimas - 13. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert