Hroðaleg sóknarframmistaða í stóru tapi Íslands

Gísli Þorgeir Kristjánsson er einn lykilmanna íslenska landsliðsins.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er einn lykilmanna íslenska landsliðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mátti sætta sig við afar vont tap fyrir Tékklandi, 22:17, þegar liðin áttust við í undankeppni EM 2024 í Brno í Tékklandi í kvöld.

Leikurinn fór mjög rólega af stað þar sem markverðir beggja liða voru í aðalhlutverkum.

Björgvin Páll Gústavsson var til að mynda búinn að verja fjögur skot eftir rúmlega sex mínútna leik og Tomás Mrkva í marki Tékklands tvö.

Ísland byrjaði ögn betur og komst í 2:0 eftir tæplega sjö mínútur. Eftir það seig verulega á ógæfuhliðina hjá íslenska liðinu þar sem Tékkar skoruðu sex mörk í röð og voru skyndilega komnir með fjögurra marka forystu eftir tæplega stundarfjórðungs leik.

Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson, þjálfarar íslenska liðsins, tóku þá leikhlé. Í kjölfarið tók Ísland vel við sér og minnkaði muninn niður í 7:6 og tókst svo að jafna metin í 10:10 þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik.

Lokakafli hálfleiksins var hins vegar slakur hjá íslenska liðinu þar sem Mrkva varði vel frá Óðni Þór Ríkharðssyni í tveimur sóknum í röð á meðan Tékkar skoruðu í tvígang.

Staðan í hálfleik var því 12:10, Tékkum í vil. Að loknum fyrri hálfleiknum voru bæði Björgvin Páll og Mrkva búnir að verja sjö skot.

Ekkert verður sett út á markvörsluna í fyrri hálfleik en sóknarleikurinn var á lengstum köflum slakur og varnarleikurinn of linur.

Síðari hálfleikurinn hófst með svipuðum hætti og sá fyrri þar sem lítið var skorað til að byrja með.

Tékkar skoruðu að vísu úr sinni fyrstu sókn í hálfleiknum, Ísland svaraði með tveimur mörkum en tók það liðin tæpar sjö mínútur að skora þessi þrjú mörk.

Staðan var orðin 13:12 og þá tóku Tékkar leikhlé. Það gaf heimamönnum byr undir báða vængi og skoruðu þeir fimm mörk í röð á meðan Ísland gat ekki með nokkru móti skorað.

Munurinn var þar með orðinn sex mörk, 18:12, og var útlitið afar dökkt hjá Íslandi, sem skoraði einungis tvö mörk á fyrstu 21 mínútum síðari hálfleik, sem er með nokkrum ólíkindum.

Mestur varð munurinn átta mörk í stöðunni 21:13 en undir lokin lagaði íslenska liðið stöðuna aðeins með nokkrum mörkum.

Niðurstaðan var að lokum fimm marka tap og því er verk að vinna fyrir Ísland ætli liðið sér að hrifsa efsta sætið í riðli 3 til sín að nýju þegar liðin mætast aftur í Laugardalshöll á sunnudag.

Tékkland er nú með fullt hús stiga, sex, á toppi riðilsins að loknum þremur umferðum en Ísland kemur í humátt á eftir með fjögur stig.

Viggó Kristjánsson var markahæstur í liði Íslands með sjö mörk.

Björgvin Páll varði 14 skot, líkt og Mrkva gerði í marki Tékklands.

Tékkland 22:17 Ísland opna loka
60. mín. Björgvin Páll Gústavsson (Ísland) varði skot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert