Selfoss í þriðja sæti eftir óvæntan sigur á toppliðinu

Ísak Gústafsson brýtur sér leið í gegnum vörn Vals í …
Ísak Gústafsson brýtur sér leið í gegnum vörn Vals í leiknum. Þorgils Jón Svölu Baldursson reynir að stöðva hann. mbl.is/Óttar Geirsson

Selfyssingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu topplið Vals, 33:31, á Selfossi í Olís deild karla í handbolta í kvöld.

Leikurinn var jafn til að byrja með en þegar leið á fyrri hálfleikinn gaf Selfoss í og leiddi með fimm til sjö mörkum þar til í upphafi seinni hálfleiks. Þá náðu Valsmenn að minnka muninn í þrjú mörk og hélst hann í kringum það þangað til að um 10 mínútur voru eftir. Þá gáfu Selfyssingar aftur í og komu muninum mest upp í sjö mörk, sem dugði til sigurs, þrátt fyrir heiðarlega tilraun Vals til að koma til baka.

Einar Sverrisson var markahæstur í liði Selfoss í leiknum með níu mörk en Jón Þórarinn Þorsteinsson átti frábæran leik í markinu með 20 varin skot. Finnur Ingi Stefánsson, Jóel Bernburg og Stiven Tobar Valencia voru markahæstir í liði Vals með fjögur mörk hver.

Valur er þrátt fyrir tapið enn á toppi deildarinnar, enda liðið búið að tryggja sér titilinn fyrir nokkru síðan. Selfoss hins vegar fer með sigrinum úr sjöunda sæti upp í það þriðja og er liðið með 23 stig í góðri stöðu til að tryggja sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert