Stjarnan vann eins marks sigur á Gróttu, 31:30, í úrvalsdeild karla í handknattleik í Garðabænum í kvöld.
Stjörnumenn náðu forystunni snemma í fyrri hálfleik og voru mest sex mörkum yfir á 24. mínútu, 15:9. Grótta minnkaði muninn á lokamínútum fyrri hálfleiksins en hálfleikstölur voru 19:16, Stjörnunni í vil.
Stjörnumenn héldu forystunni mest allan síðari hálfleikinn en þegar sex mínútur voru eftir jafnaði Grótta metin í 27:27. Stjarnan hafði þó betur að lokum og vann eins marks sigur.
Hergeir Grímsson átti hreint út sagt magnaðan leik í liði Stjörnunnar en hann skoraði 13 mörk. Næst markahæstur hjá Stjörnunni var Pétur Árni Hauksson með sex. Hjá Gróttu var Jakob Ingi Stefánsson markahæstur með sex mörk.
Þetta voru fyrstu stig Stjörnunnar sem er nú með tvö í níunda sæti. Grótta er einnig með tvö en í ellefta sæti.