Hraunað yfir Þóri í Noregi

Þórir Hergeirsson þjálfar norska kvennalandsliðið í handbolta.
Þórir Hergeirsson þjálfar norska kvennalandsliðið í handbolta. AFP/Jonathan Nackstrand

Norskur blaðamaður að nafni Leif Welhaven hjólaði í stefnu Þóris Hergeirssonar, landsliðsþjálfara norska kvennaliðsins í handknattleik. 

Þórir hefur meinað leikmönnum norska liðsins að veita eiginhandaáritanir og að taka sjálfsmyndir með aðdáendum sínum í aðdraganda og í kringum heimsmeistaramótið í handknattleik sem verður í Svíþjóð, Noregi og Danmörku í nóvember og desember á þessu ári. 

Þórir gerir það til þess að takmarka nánd leikmanna sinna við stuðningsmenn til þess að lámarka líkur á að landsliðskonurnar smitist af veirum eins og nóruveirunni og kórónuveirunni. 

Þórir segist vita og skilja að margir ungir stuðningsmenn liðsins verði vonsviknir vegna þessara reglna, en að ákvörðunin sé nauðsynleg. 

Sakar Þóri um móðursýki

Norski blaðamaðurinn Leif Welhaven er alls ekki sammála stefnu Þóris, og í grein sem hann birti á VG kallar hann Þóri móðursjúkan. 

Þar talar Welhaven um að leikmenn liðsins ættu ekki að taka stuðningi og áhuga á liðinu sem gefnum hlut. Bann eins og þessi geri meiri skaða en gagn. 

„Þórir Hergeirsson er búinn að ákveða að börnin verði fyrir vonbrigðum. Hann á að sjálfsögðu rétt á þessari ákvörðun, en er hún skynsöm, nauðsynleg og áhættunnar virði?

Í landsliðsíþrótt sem er í sviðsljósinu einu sinni á ári, og nú á heimavelli í Noregi, snýst þetta um miklu meira en bara verðlaun. Þetta snýst einnig um upplifun, og ég er hræddur um að Þórir muni sakna þess. 

Auðvitað er heilbrigði mikilvægt, en línan sem nú hefur verið sett minnir fyrst og fremst á móðursýki,“ segir Welhaven meðal annars í langri grein sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert