Loks heimasigur hjá KA

Ólafur Gústafsson úr KA með boltann í kvöld.
Ólafur Gústafsson úr KA með boltann í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA og Grótta léku í kvöld mikilvægan leik í 17. umferð úrvalsdeildar karla í handbolta. Spilað var í KA-heimilinu á Akureyri. Þegar styttist í að deildarkeppninni ljúki þá eru nokkur lið í baráttunni um síðustu sætin í úrslitakeppninni en átta efstu lið deildarinnar komast þangað.

Fyrir leik sátu Stjarnan og Grótta í sætum sjö og átta, bæði með 13 stig. KA var í níunda sætinu með stigi minna og svo var stutt í botnliðin þrjú, HK, Víking og Selfoss. Öll þessi lið geta enn fallið úr deildinni ef allt fer á versta veg hjá þeim.

KA hafði tapað heilum sex heimaleikjum í röð og aðeins uppskorið þrjú stig í átta leikjum í KA-heimilinu. Í kvöld náðu KA-menn að hrista af sér heimaleikjabölvun sína og unnu þeir góðan sigur, 32:28.

KA er því komið með 14 stig í sjöunda sæti en Grótta fer niður í níunda sætið með 13 stig.

Leikurinn byrjaði með miklum ákafa og hraða og mörkin komu á færibandi. Eftir tíu mínútur var staðan 9:7 fyrir KA og allir að skora. Smám saman þéttust varnirnar og þá sérstaklega vörn Gróttu. Einar Baldvin Baldvinsson varði svo vel fyrir aftan hana. Grótta tók yfirhöndina um miðjan hálfleikinn og komst mest í fjögurra marka forustu, 16:12. Á þeim kafla litu KA-menn vægast sagt illa út og virtust bæði ráðalausir og óagaðir.

Heimamenn náðu að rétta aðeins úr kútnum á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í tvö mörk. Staðan í hálfleik var 18:16 fyrir Gróttu og höfðu markverðir KA aðeins varið tvö skot í fyrri hálfleik á meðan Einar Baldvin var með átta varin skot.

Veðáttan á Íslandi er þannig að skjótt skipast veður í lofti og gildir það sama um íþróttirnar. Eftir hálfleikshlé snéru KA-menn leiknum strax sér í vil. Var það ekki síst fyrir stórleik Bruno Bernat í markinu sem varði eins og berserkur fyrri hluta seinni hálfleiks. Gamli köggullinn Daði Jónsson kom einnig sterkur inn í vörn KA og skilaði magnaðri frammistöðu í vinstra horninu þar sem hann skoraði hvert markið á fætur öðru þegar KA var að snúa leiknum sér í vil.  

KA byrjaði seinni hálfleikinn með því að jafna og komst svo í kjölfarið yfir. KA komst í 23:19 og 26:21 og leiddi með nokkrum mörkum fram á lokakaflann. Staðan var 30:25 þegar KA missti tvo menn af velli og sex mínútur eftir af leiknum. Grótta minnkaði muninn í 30:27 og á lokamínútunni var mikil keppni um markamuninn. KA vann að lokum 32:28 en Grótta vann fyrri leik liðanna 27:24 og þar með hefur KA betri innbyrðisstöðu ef liðin enda jöfn í deildinni.

KA stökk upp í sjöunda sæti deildarinnar en Grótta datt niður í það níunda. Hvort lið á eftir fjóra leiki í deildinni en næsta umferð verður ekki spiluð fyrr en eftir þrjár vikur. KA fær þá Víkinga í heimsókn en Grótta spilar heimaleik gegn Aftureldingu.

Bestu menn KA í leiknum voru Bruno í markinu og Daði Jónsson. Ólafur Gústafsson var drjúgur í vörn og sókn og leysti hann sína menn ítrekað úr vandræðum með góðum mörkum eftir stirðar sóknir KA. Línumennirnir Jens Bragi og Einar Birgir stóðu sig einnig vel og var Ott Varik sprækur í hægra horninu.

Hjá Gróttu byrjuðu Hannes Grimm, Elvar Otri Hjálmarsson og Andri Fannar Elísson vel og Einar Baldvin varði mjög vel í fyrri hálfleik. Fjaraði undan þeim öllum þegar leið á en þá komu Lúðvík Thorberg Arnkelsson og Jakob Ingi Stefánsson til skjalanna í staðinn.

KA 32:28 Grótta opna loka
60. mín. Ólafur Gústafsson (KA) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert