Fyrsti heimaleikurinn með áhorfendur

Hafnfirðingarnir Orri Freyr Þorkelsson og Ágúst Elí Björgvinsson ræða saman …
Hafnfirðingarnir Orri Freyr Þorkelsson og Ágúst Elí Björgvinsson ræða saman á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson mun í kvöld spila A-landsleik fyrir framan áhorfendur á Íslandi í fyrsta skipti er Ísland og Eistland eigast við í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á lokamóti HM á næsta ári.

Orri hefur áður spilað heimaleiki fyrir landsliðið, en það var í miðju covid og án áhorfenda. 

„Það er mjög spennandi að koma inn og þetta verður í fyrsta skipti sem ég spila landsleik á Íslandi með áhorfendur. Ég er mjög spenntur fyrir þessum leikjum. Við ætlum að mæta klárir í mikilvæga leiki,“ sagði Orri við mbl.is.

Orri spilaði á EM 2022 en var hvorki með á HM 2023 né EM 2024. Hann er því spenntur að fá tækifæri með íslenska landsliðinu í mikilvægum leikjum á ný.

„Ég vil nýta þetta tækifæri sem best, sérstaklega því ég er að koma inn í þetta aftur. Vonandi fæ ég að spila. Það er mikill heiður að fá að vera með í þessum hópi,“ sagði Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka