Stoltur af liðinu og af sjálfum mér

Aron Pálmarsson tekur við Íslandsbikarnum.
Aron Pálmarsson tekur við Íslandsbikarnum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sigursteinn Arndal þjálfari FH var virkilega glaður í bragði eftir að lið hans tryggði sér Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik með sigri gegn Aftureldingu í fjórða úrslitaleiknum í Mosfellsbæ í kvöld, 31:27.

FH vann því tvo af þeim þremur titlum sem í boði voru á tímabilinu, Deildar- og Íslandsmeistaratitilinn. Mbl.is ræddi við kátan Steina Arndal strax eftir leik:

Ef við byrjum á leiknum í kvöld. Hvað skóp sigurinn?

„Við vorum ótrúlega klárir í þennan leik í kvöld. Við spiluðum frábærlega og vorum með frumkvæðið frá upphafi til enda og ég fann það frá strákunum að við vorum aldrei að fara sleppa takinu af þessu tækifæri að vinna hér í kvöld.

Það sem færir okkur þennan sigur er samt þetta frábæra lið sem við höfum. Við vitum að við erum með mikil gæði en við erum líka með magnað lið, mikla samstöðu og mikla liðsheild. Það skiluðu allir sínum hlutverkum vel og það stóðu sig allir frábærlega."

Þorsteinn Leó hefur verið ykkur mjög erfiður í þessu einvígi en í kvöld skoraði hann ekki mark í fyrri hálfleik. Var mikil vinna lögð í að halda honum niðri í kvöld?

Sigursteinn Arndal þjálfari FH.
Sigursteinn Arndal þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurftum að vera fljótir að læra eftir fyrsta leik þar sem hann fór mjög illa með okkur. Það fór mikil vinna í að breyta nokkrum vinnureglum hvað varðar að verjast honum og það var erfitt, sérstaklega þegar það er svona stuttur tími milli leikja."

FH vinnur tvo titla af þremur. Þú varst mikið gagnrýndur á tímabili á ákveðnum miðlum og menn efuðust. Nú er stóri dómur fallinn þar sem FH vinnur þessa titla. Hvað hefur þú að segja núna?

„Ég er ofboðslega stoltur af liðinu og ég get alveg sagt að ég er stoltur af sjálfum mér. Þetta var mikil pressa á okkur alveg frá byrjun og mér finnst við vera heilt yfir búnir að spila mjög vel bæði með og án Arons."

Ef við tölum aðeins um Aron sem er líklega ennþá einn sá besti í heiminum. Það fylgir því væntanlega gríðarleg pressa að hafa slíkan leikmann í liðinu sínu ásamt því að allar væntingar fara upp í rjáfur ekki satt?

„Jú en það gerist líka margt jákvætt því hann er stórkostlegur í að gera aðra í kringum sig góða. Hann setur miklar kröfur og mér finnst þessir ungu leikmenn vera í algjörum forréttindum að fá að spila með honum."

Sigursteinn og Aron áfram

Verður þú áfram með FH?

„Já ég verð áfram með FH."

Verður Aron áfram á næsta tímabili?

„Já Aron verður áfram"

Eru einhverjar stórar breytingar framundan hjá FH?

„Einar Bragi fer og Ólafur Gústafsson er að koma en síðan er FH bara þannig félag að við ætlum að berjast um alla titla og við þurfum að sjá til þess að við getum verið þar. En fyrst ætlum við að njóta kvöldsins áður en við förum að huga að næsta tímabili," sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert