Ekki æskileg byrjun á handboltaleik

Ísak Gústafsson sækir að vörn króatíska liðsins í kvöld.
Ísak Gústafsson sækir að vörn króatíska liðsins í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Valsmenn unnu frækinn sigur á liði Spacva Vinkoci frá Króatíu 34:25 í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Valsmenn byrjuðu leikinn afar illa en sneru taflinu við. Björgvin Páll Gústavsson markvörður Valsmanna varði 14 skot í leiknum. Við spurðum hann út í leikinn í kvöld.

Þið byrjið leikinn af afar illa og lendið 6:0 undir. Þá tekur Óskar Bjarni leikhlé og eftir það sáu Króatarnir aldrei til sólar. Hvað breyttist?

„Þetta var rosalega erfiður fyrri hálfleikur og lendum 6:0 undir sem er ekki æskileg byrjun á handboltaleik. Við náum samt að fara inn í hálfleikinn ekki of mörgum mörkum undir. Síðan núllstillum við okkur í hálfleik og náum vopnum okkar. Ég held að við höfum sýnt úr hverju við erum gerðir spilandi gegn liði sem við þekkjum lítið. Við lærðum bara af mistökunum í fyrri hálfleik."

Hvað sagði Óskar við ykkur í leikhléinu?

„Við vorum bara ekki alveg á tánum og vorum bara í handbremsu. Við færðum okkur framar og breyttum orkustiginu hjá okkur. Síðan í síðari hálfleik þá var þetta mun auðveldara fyrir mig því vörnin var það öflug."

Mætti segja að þið hafið sprengt Króatana í síðari hálfleik þegar þið eruð komnir 3-4 mörkum yfir?

„Já klárlega. Það er alltaf markmiðið okkar. Þeir voru líka þreyttir enda komu þeir bara í gær. Það er samt erfitt að ætla að keyra yfir lið þegar þú ert kominn 6:0 undir en eftir að við jöfnuðum og komumst yfir þá notuðum við það vopn og það tókst."

Þið spilið aftur gegn þeim á laugardaginn í Króatíu. Þið farið með 9 marka forskot í farteskinu. Er það nóg?

„Ekki ef við ætlum að byrja 6:0 undir eins og í dag. Þá eru þetta bara þrjú mörk. En við förum auðvitað í alla leiki til að vinna þá og við unnum alla Evrópuleikina í fyrra nema einn og það var seinni úrslitaleikurinn sem við máttum tapa og við erum það góðir í handbolta að þetta forskot á að duga en við þurfum að berjast fyrir þessu.

Áður en þessi leikur er eigum við leik gegn ÍBV sem er stórleikur þannig að við erum að fara inn í erfitt prógramm sem er fallegt og gott," sagði Björgvin Páll í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert