Þá vitum við hvað getur gerst

Óskar Bjarni á hliðarlínunni í kvöld.
Óskar Bjarni á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Valsmanna var ánægður með úrslitin gegn Spacva Vinkoci frá Króatíu í kvöld. Valsmenn fara til Króatíu á laugardaginn til að spila seinni leikinn og verða með 9 marka forskot fyrir þann leik en í húfi er sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur.

Mbl.is ræddi við Óskar Bjarna strax eftir leik.

Hvernig útskýrir þú þennan frábæra viðsnúning hjá þínu liði í kvöld?

„Við erum auðvitað ennþá að spila okkur saman en síðan fórum við bara of passífir inn í þennan leik og það er mér að kenna. Við áttum að byrja mun agressívari. Síðan fór Björgvin að verja vel í síðari hálfleik og það munar um það. Planið var alltaf að halda uppi háu tempói og það fór að borga sig í síðari hálfleik þegar það dró vel af þeim, þá var nóg eftir hjá okkur."

Viðsnúningurinn í ykkar leik byrjar samt strax á 10 mínútu þegar þið eruð 6:0 undir og þú tekur leikhlé. Hvað sagðir þú við strákana?

„Ég sagði svo sem ekkert sérstakt. Okkur leið bara illa í upphafi leiks. Það var ekkert að ganga, engin vörn, vítaskotin að klikka og bara ekkert að ganga upp. Mér fannst við bara vera svolítið litlir þar sem allt gekk upp hjá þeim og ekkert hjá okkur.

Ég var svo sem ekki með neina töfralausn annað en að ég óskaði eftir meira frumkvæði. Við vorum í vandræðum í fyrri hálfleik en það var allt annar og betri bragur á okkur í seinni hálfleik."

Niðurstaðan er 9 marka sigur. Er það nóg fyrir seinni leikinn í Króatíu?

„Auðvitað er það frábært veganesti en það er oft hættulegt að fara með of stórt forskot út. Í fyrra vorum við oft að vinna heimaleikina bara með einu eða tveimur mörkum og það hélt okkur á tánum í útileikjunum. Ef við slökum á og mætum illa til leiks eftir viku þá vitum við alveg hvað getur gerst, við sáum það bara í fyrri hálfleik.

Við þurfum að mæta til Króatíu og gera þetta almennilega. Við ætlum okkur áfram og þurfum að ná góðum leik," sagði Óskar Bjarni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert