FH lagði Hauka með einu marki

Jóhannes Berg Andrason reynir skot að marki Hauka í kvöld.
Jóhannes Berg Andrason reynir skot að marki Hauka í kvöld. Eyþór Árnason

Það var sannkallaður Hafnarfjarðarslagur í Kaplakrika í kvöld þegar FH og Haukar áttust við í Íslandsmóti karla í handbolta og lauk leiknum með sigri FH 30:29.

Eftir leikinn eru liðin bæði með 6 stig eftir 4 leiki í tveimur efstu sætum deildarinnar.

Fyrri hálfleikur var ansi fjörugur og gríðarlegur hraði í leiknum. Mikið var skorað eða rúmlega eitt mark á mínútu. Mátti helst halda að hér væri um að ræða leik í úrslitakeppni en vissulega er nóg að í þessum leikjum er það alltaf montrétturinn í Hafnarfirði sem er að veði.

Haukar skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins áður en FH minnkaði muninn. Þannig þróaðist fyrri hálfleikurinn þar sem Haukar leiddu að mestu með tveimur mörkum. Mest náðu Haukar þriggja marka forskoti í stöðunum 8:5 og 17:14. FH-ingar náður að jafna tvisvar sinnum í fyrri hálfleik í stöðunum 3:3 og 9:9.

Eins og fyrr segir þá leiddu Haukamenn fyrri hálfleikinn að mestu og gátu farið inn í hálfleikinn með þriggja marka forskot þegar 29 sekúndur voru eftir. Þá tók Ásgeir Örn þjálfari Hauka leikhlé og skipulagði lokasókn hálfleiksins. Hún fór hinsegar í vaskinn og brunuðu leikmenn FH upp í hraðaupphlaup og minnkuðu muninn í eitt mark.

Staðan í hálfleik 17:16 fyrir Hauka og byrjuðu FH-ingar með boltann í seinni hálfleik.

Skarphéðinn Ívar Einarsson skorar fyrir Hauka.
Skarphéðinn Ívar Einarsson skorar fyrir Hauka. Eyþór Árnason

Markahæstur í liði FH í fyrri hálfleik var Ásbjörn Friðriksson með 4 mörk og komu þrjú þeirra í röð fyrir FH. Jóhannes Berg Andrason var einnig með 4 mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 5 skot.

Í liði Hauka var Ólafur Ægir Ólafsson og Össur Haraldsson báðir með 4 mörk. Vilius Rasimas varði 5 skot og Aron Rafn Eðvarðsson eitt skot.

Hádramatískur seinni hálfleikur

Seinni hálfleikur var meira en lítið spennandi. FH byrjaði á því að jafna leikinn og komust síðan yfir í stöðunni 18:17. FH hélt áfram og náðu mest þriggja marka forystu á sama tíma og Haukar áttu mjög slæman kafla. FH skoraði fyrstu fjögur mörk fyrri hálfleiks og komust í 20:17 áður en Haukar minnkuðu muninn með sínu fyrsta marki í seinni hálfleik eftir rúmlega 7 mínútur.

Haukar voru samt ekki hættir því þeir náðu að jafna leikinn og komast yfir í stöðunni 23:22 og náðu síðan þriggja marka forskoti í stöðunni 25:22. Eftir þetta tók við hádramatískur leikur þar sem allt gat gerst.

FH náði að jafna leikinn aftur í stöðunni 27:27 og aftur 29:29 eftir að hafa verið undir 29:27. FH skoraði síðan sigurmarkið þegar Birgir Már Birgisson skoraði fyrir FH sem unnu leikinn 30:29 eins og fyrr segir.

Haukar fengu tækfiæri til að klara leikinn þegar þeir fengu vítakast í stöðunni 29:28 fyrir Haukum en hetja FH-inga, Daníel Freyr Andrésson varði vítið.

Svo fór að FH vann dramatískan sigur 30:29 og eiga montréttinn fræga í Hafnarfirði að minnsta kosti um sinn.

Markahæstur í liði FH var Jóhannes Berg Andrason með 8 mörk. Hetja FH-inga, Daníel Freyr Andrésson varði 15 skot, þar af 2 vítaskot.

Í liði Hauka voru þeir Össur Haraldsson, Skarphéðinn Ívar Einarsson og Ólafur Ægir Ólafsson allir með 6 mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 9 skot og Vilius Rasimas varði 5 skot.

FH leikur næst gegn Stjörnunni í Garðabæ á meðan Haukar fara og heimsækja lið Fram.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 30:29 Haukar opna loka
60. mín. Ágúst Birgisson (FH) fékk 2 mínútur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert