Getum réttilega sagt að Daníel var hetjan okkar

Daníel Freyr Andrésson fagnar í kvöld.
Daníel Freyr Andrésson fagnar í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var sigurreifur eftir dramatískan sigur á Haukum í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld.

Spurður út í leikinn sagði Sigursteinn þetta:

„Ég er mjög ánægður með sigurinn. Bæði vegna þess að Haukar voru mjög góðir en á sama tíma var ekkert allt frábært hjá okkur. En að því sögðu var góður karakter í liðinu og ákveðin reynsla sem skilaði þessu í lokin hjá okkur.“

Haukar leiða allan fyrri hálfleik og alveg helminginn af seinni hálfleik. Samt lenti teningurinn þannig í lokin að FH vinnur. Hvað réði úrslitum í kvöld að þínu mati?

„Það voru þó nokkuð af mistökum í leiknum og fullt af hlutum sem við getum unnið með þar. En ef ég á að taka einhvern einn hlut út fyrir mengið þá verð ég að nefna Daníel Frey Andrésson sem varði oft á tíðum stórkostlega og var með hrikalega mikilvægar vörslur fyrir okkur í lokin,“ sagði hann.

Getum við ekki réttilega sagt að Daníel Freyr hafi verið hetja FH í þessum leik?

„Jú, ef þú vilt alvöru fyrirsagnir þá getur þú réttilega hent í það að hann hafi verið hetjan okkar í kvöld,“ sagði Sigursteinn hlæjandi.

Hvað segir þú um aðra leikmenn í liðinu?

„Það var mikið um mistök og við vorum ekki þar sem við áttum að vera í fyrri hálfleik. Við fórum yfir það í hálfleik að við getum ekki mætt með þessa frammistöðu í FH - Hauka og svo fannst mér reynslan hjá Danna, Ása og Aroni skila þessu í lokin,“ sagði hann.

Haukar skora ekki fyrstu sjö mínútur seinni hálfleiks. Var það hálfleiksræða þjálfarans sem skilaði þessu eða léleg spilamennska Hauka?

„Það er kannski erfitt að svara fyrir Hauka. Þeir vilja eflaust meina að þeir hefðu átt að gera eitthvað betur. En hvað okkur varðar þá fórum við bara yfir varnarleikinn í hálfleik og þá þætti sem þurfa að vera til staðar í svona leik. Mér fannst það skila sér inn á völlinn í byrjun seinni hálfleiks og við þéttum vörnina vel framan af,“ sagði Sigursteinn.

Nú er FH heldur betur búið að rétta úr kútnum eftir vont tap gegn HK um daginn. Sigur gegn ÍBV og nú Haukum sýna það. Næsta verkefni FH er Stjarnan í Garðabæ sem hafa komið á óvart í byrjun tímabils. Hvernig sérðu það verkefni fyrir þér?

„Stjarnan er búin að vera virkilega flott í byrjun móts. Við erum að fara í svakalega erfiðan leik á föstudag og við erum í þeirri stöðu að við þurfum að hafa báða fætur á jörðinni og taka eitt verkefni fyrir í einu og næsta verkefni er bara Stjarnan á föstudag,“ sagði Sigursteinn Arndal að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert