Hjálpar að hugsa ekki bara um handboltann

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir Árni Sæberg

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir landsliðskona í handbolta kann vel við sig í Kristianstad í Svíþjóð. Hún gekk í raðir félagsins frá sænska liðinu Skara í sumar og er sátt við skrefið til Suður-Svíþjóðar.

„Skara er mjög lítill bær og maður er kominn í stærra umhverfi. Það er meira um að vera í Kristianstad og það hjálpar manni líka í handboltanum, það hjálpar að hugsa ekki bara um handboltann. Það er líf í kringum mig og ég hef komið mér vel fyrir. Mér líður vel,“ sagði hún í samtali við mbl.is og hélt áfram:

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik Íslands og Frakklands á HM …
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik Íslands og Frakklands á HM í lok síðasta árs. Ljósmynd/Jon Forberg

„Ég vildi komast á stærri stað og líka komast á stað þar sem ég er í stærra hlutverki, bæði í vörn og sókn. Ég vildi þjálfara sem bæri meira traust til mín og svo vildi ég byrja í skóla líka. Kristianstad hefur allt sem ég leitaðist eftir.“

Það gengur vel hjá Jóhönnu hjá nýju liði. Berta Rut Harðardóttir var fyrir hjá Kristianstad og þá eru þær Katla Tryggvadóttir, Hlín Eiríksdóttir og Guðný Árnadóttir leikmenn fótboltaliðs Kristianstad.

„Ég hef verið að spila vel og mér líður vel innan liðsins og á vellinum. Það er líka gott að vera með Íslendinga í kringum sig, það var þannig hjá mér hjá Skara og nú hjá Kristianstad.

Maður hittir marga Íslendinga hérna og þær eru nokkrar sem spila með fótboltaliðinu. Það er mjög gaman,“ sagði Jóhanna, sem er einnig í skóla meðfram því að spila handbolta. „Það er nóg að gera og það er krefjandi en ég kann vel við að það sé nóg að gera.“

Jóhanna kann vel við sig hjá Kristianstad.
Jóhanna kann vel við sig hjá Kristianstad. Ljósmynd/Kristianstad

Hún er á því að skrefið til Kristianstad geti hjálpað landsliðsferlinum. „Alveg klárlega. Ég finn strax mun á mér og ég er í umhverfi þar sem ég get klárlega bætt mig. Ég er mjög sátt með þetta skref.“

Næst á dagskrá hjá Jóhönnu eru þrír leikir með íslenska landsliðinu í Chep í Tékklandi í undirbúningi fyrir Evrópumótið í lok árs. Ísland mætir Tékklandi, Póllandi og tékkneska félagsliðinu Házená Kynzvart, sem kemur í stað Egyptalands sem hætti við keppni á mótinu.

„Ég er spennt. Það er alltaf gaman að hitta þessar stelpur og það er mikill heiður að vera í þessu umhverfi. Vonandi næ ég að sýna mig og sanna. Maður er staðráðinn í því fá að spila meira,“ sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert