Það er ekkert allt í rjúkandi rúst

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA.
Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA. Ljósmynd/ Kristín Hallgrímsdóttir

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA, sá jákvæða hluti í leik sinna manna þrátt fyrir 11 marka tap gegn Evrópubikarmeisturum Vals í úrvalsdeild karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

KA, sem er enn án stiga eftir fjóra leiki í deildinni leikur næst gegn ÍR á Akureyri eftir rúma viku.

Þegar Halldór var spurður út í leikinn í kvöld hafði hann þetta að segja:

„Ef ég horfi á jákvæðu hlutina þá er ég ánægður með að liðið barðist allan leikinn. Það var fullt af baráttu og lífi í okkur. Við bara fengum aldrei almennilega vörn og markvörslu.

Það bara hangir saman í handboltaleik. Það er það sem við erum í basli með núna. Bæði í kvöld og svo í leiknum gegn Aftureldingu.“

Spurður út í sóknarleik KA í kvöld sagði Halldór þetta:

„Varðandi sóknarleikinn þá var hann bara fínn hjá okkur. Við vorum að skapa fullt og koma okkur í alvöru dauðafæri. Björgvin Páll var hins vegar að leika okkur grátt þegar kom að því að klára þessi dauðafæri.

Þegar Valur jafnar þá kemur samt slæmur kafli hjá okkur sóknarlega þar sem við erum að gera sóknarmistök og þá ná þeir 6-7 marka forskoti sem við vorum að elta restina af leiknum.“

Í seinni hálfleik byrjuðu KA-menn vel og héldu vel í við Valsmenn framan af seinni hálfleik. Þegar 46 mínútur voru liðnar af leiknum þá var munurinn sex mörk í stöðunni 28:22.

„Það var fullt af baráttu í okkur í seinni hálfleik. Við vorum að kasta okkur á bolta og berjast um alla bolta. Við erum aðeins á eftir áætlun eins og ég hef sagt áður. Bjarni er bara að spila á klukku eftir þessi meiðsli.

Það má ekki gleyma því að hann er ekki búinn að spila í marga mánuði og Kamil er líka á eftir áætlun eftir að hafa meiðst fyrir undirbúningstímabilið. Það sést alveg að okkur vantar ekki mikið upp á og við verðum ógeðslega góðir. Varnarleikurinn þarf bara að smella og þá getur ýmislegt gengið upp.“

Það er svipaður keimur í þessum leik líkt og leiknum gegn Aftureldingu þar sem Valsmenn stinga af og á sama tíma er eins og KA-menn gefist upp. Hvernig lestu í það?

„Við erum með fínan kafla, minnkum í sex mörk og þá fáum við tveggja mínútna brottrekstur og þá þyngdist þetta mikið en við brotnum aldrei. Við reyndum alltaf þrátt fyrir að róðurinn væri erfiður. Síðan er það þannig að jú við töpum gegn Gróttu í alvöru leik. Töpum gegn Aftureldingu, Haukum og Val.

Á pappírum ættum við ekki að vera með fullt hús stiga. Áhyggjuefnið er vörnin og markvarslan. En við erum að berjast allan leikinn og ef við værum á virkilega slæmum stað andlega þá hefðum við tapað þessum leik með um það bil 25 mörkum í kvöld. Þannig að ég ætla að vera bjartsýnn og tel að við eigum fullt inni.“

Næsti leikur er á fimmtudaginn í næstu viku gegn ÍR á Akureyri. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?

„Það er bara allt undir fyrir bæði lið. Við þurfum alvöru frammistöðu til að geta unnið ÍR sem eru búnir að vera mjög sprækir. Við þurfum betri frammistöðu í vörn og markvörslu. Við förum í þann leik til að vinna hann og það tekst ef við vinnum í því sem þarf að batna.

Sóknarleikurinn er bara mjög fínn og flottur að mörgu leyti en við þurfum að láta varnarleikinn smella. Þannig að það er ekkert allt í rjúkandi rúst,“ sagði Halldór Stefán að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert