Valsmenn tóku Norðanmenn í kennslustund

Alexander Petersson með boltann í leiknum í kvöld.
Alexander Petersson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur og KA áttust við í fjórðu umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld og endaði leikurinn með stórsigri Valsmanna 38:27.

Eftir leikinn er Valur með þrjú stig en lið KA er ennþá án stiga eftir fjórar umferðir og útlitið mjög svart fyrir Norðanmenn.

Lið KA hélt í við Valsmenn fyrstu 9 mínútur leiksins og komust 3:1 yfir. Þá mættu Valsmenn til leiks og jöfnuðu í stöðunni 4:4. Eftir það var leikurinn algjör einstefna þar sem Valsmenn gjörsamlega léku sér að KA-mönnum og tóku þá í raun í kennslustund.

Eftir 25 mínútna leik voru Valsmenn komnir 6 mörkum yfir í stöðunni 15:9. Tvö leikhlé KA í fyrri hálfleik höfðu ekkert að segja því Evrópubikarmeistararnir voru ekki hættir. Valsmenn juku muninn og fóru inn í hálfleikinn með 8 marka forskot. Staðan í hálfleik 20:12 fyrir Val og leiknum í raun lokið miðað við spilamennsku KA í fyrri hálfleik.

Björgvin Páll Gústavsson átti frábæran fyrri hálfleik og varði 9 skot. Ísak Gústafsson var með 5 mörk og Andri Finnsson með 4 mörk.

Í liði KA varði Bruno Bernat 1 skot. Einar Rafn Eiðsson skoraði 4 mörk, 3 úr vítaskotum. Einar Birgir Stefánsson skoraði einnig 4 mörk í fyrri hálfleik fyrir KA.
KA menn byrjuðu seinni hálfleikinn á að minnka muninn í 7 mörk. Norðanmenn héldu í við Valsmenn framan af seinni hálfleik og var munurinn alltaf 6-7 mörk. Jákvæði punkturinn fyrir KA menn er sá að þeir héldu í við Valsmenn sem þurftu einungis að halda fengnum hlut.

Valsmenn náðu 11 marka forskoti þegar 20 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik með marki frá Magnúsi Óla Magnússyni sem hafði stuttu áður komið Valsmönnum yfir 10 marka múrinn. Mestur varð munurinn 12 mörk í stöðunum 37:25 og 38:26.

Lokatölur á Hlíðarenda 11 marka sigur Valsmanna 38:27.

Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot. Ísak Gústafsson skoraði 9 mörk, þar af þrjú úr vítum.

Í liði KA skoraði Einar Rafn Eiðsson 7 mörk, þar af 6 úr vítum. Bruno Bernat varði 4 skot, þar af eitt vítaskot.

Valsmenn leika næst gegn FH í Kaplakrika á meðan KA tekur á móti ÍR fyrir norðan. Báðir leikirnir fara fram 3. október.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 38:27 KA opna loka
60. mín. Leik lokið Valsmenn taka KA-menn í algjöra kennslustund og rótbursta þá með 11 marka sigri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert