Auðvitað er pressa frá samfélaginu

Andri Erlingsson i færi í kvöld.
Andri Erlingsson i færi í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Andri Erlingsson, miðjumaður Eyjamanna, átti góðan leik í liði ÍBV sem lagði Fjölni að velli með átta marka mun í Vestmannaeyjum í úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Hann skoraði sex mörk og var markahæstur á vellinum ásamt því að leggja upp fjögur mörk fyrir liðsfélaga sína og fiska tvö vítaköst.

Andri hefur komið skemmtilega inn í lið Eyjamanna eftir að bróðir hans, Elmar Erlingsson, hélt út til Þýskalands í atvinnumennsku.

„Þetta var ágætt á köflum, það var mikið af brottvísunum þannig að maður þurfti að vera slakur og sýna karakter. Þeir spila langar sóknir og því var þetta þolinmæðisverk,“ sagði Andri en Eyjamenn héldu forystunni allan leikinn.

Gestirnir náðu aldrei að jafna metin eða komast yfir. Mikið var um tapaða bolta í leiknum, 25 talsins og 14 tveggja mínútna brottvísanir, leikurinn var því frekar skrýtinn.

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var mjög soft fannst mér, við erum góðir í yfirtölu og því hentaði þetta okkur og heppnaðist vel.“

Hvernig metur Andri frammistöðuna í þessum leik samanborið við fyrstu 3 umferðirnar?

„Þetta var allt í lagi, á köflum var þetta þó lélegt og hægt en á öðrum köflum flott og góður sóknarleikur,“ sagði Andri sem hefur komið vel inn í liðið. Hvað finnst honum um tækifærin sem hann hefur fengið, er hann að spila meira en hann bjóst við?

„Ég er mjög ánægður með stöðuna sem ég er í núna, þetta hefur verið draumur að fá að spila fyrir liðið, það er auðvitað smá pressa frá samfélaginu en maður verður að komast yfir það. Maður mætir með brjóstkassann úti og þá kemur þetta.“

Andri er oftar en ekki að deila vellinum með Elís Þór Aðalsteinssyni en þeir hafa leikið saman upp yngri flokkana hjá ÍBV síðustu ár, hvernig er að spila með honum í meistaraflokki?

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það gerir mikið fyrir mig að hafa hann með mér, hann er frábær og við tengjum mjög vel saman. Við erum góðir að spila á hvorn annan og elskum að spila með hvor öðrum.“

Hvert er markmið liðsins á tímabilinu og svo markmið Andra?

„Við viljum safna eins mörgum titlum og við getum og komast eins langt og hægt er. Við viljum búa til stemningu í liðinu og halda áfram að gera vel. Ég ætla bara að nýta mínar mínútur, gera eins mikið og ég get og sýna hvað ég get. Vonandi fæ ég fleiri og fleiri mínútur og þá kemur þetta,“ sagði Andri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert