Haukur drjúgur og með fullt hús

Haukur Þrastarson lék vel.
Haukur Þrastarson lék vel. Kristjan Orri Johannsson

Fullkomið tímabil Hauks Þrastarsonar og samherja hans hjá rúmenska liðinu Dinamo Búkarest hélt áfram í kvöld.

Liðið hafði þá betur gegn Eurofarm Pelister frá Norður-Makedóníu á heimavelli í Meistaradeild Evrópu í handbolta. Urðu lokatölur 34:25.

Haukur skoraði fjögur mörk fyrir Dinamo og bætti við fjórum stoðsendingum. Liðið hefur unnið alla leiki sína í deild og Meistaradeild á tímabilinu.

Rúmenska liðið er á toppi A-riðils, ásamt Sporting frá Portúgal, með sex stig eftir þrjá leiki. Orri Freyr Þorkelsson er leikmaður Sporting.

Í sama riðli hafði þýska liðið Füchse Berlin betur gegn Fredricia frá Danmörku á útivelli, 38:32. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði þrjú mörk fyrir Fredericia og Arnór Viðarsson eitt. Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar liðið, sem er án stiga í riðlinum.

Þá vann Pick Szeged frá Ungverjalandi nauman heimasigur á franska liðinu Nantes, 33:32. Richard Bodo skoraði sigurmarkið einni sekúndu fyrir leikslok. Janus Daði Smárason skoraði eitt mark fyrir heimamenn, sem er í öðru sæti riðilsins með fjögur stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert