Landsliðsfyrirliðinn vill ekki vera á sérsamningi

Aron Pálmarsson ætlar sér stóra hluti með FH á tímabilinu.
Aron Pálmarsson ætlar sér stóra hluti með FH á tímabilinu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aron Pálmarsson segist vilja spila alla leiki fyrir FH en félagið tekur þátt í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í haust. Aron segir það undir sér sjálfum komið að vera í góðu formi.

Valsmenn fengu að kenna á álaginu sem fylgir því að keppa um titla á öllum vígstöðum undanfarin tvö ár en Aron telur sig vera í stakk búinn til að taka fullan þátt í öllum leikjum.

„Ég vil náttúrulega spila alla þessa leiki, deild og Evrópuleiki. Ég vil ekki vera á einhverjum afslætti eða sérsamningi. Svo lengi sem ég er heill og góður líkamlega en það er líka undir sjálfum mér komið“, sagði Aron við mbl.is á blaðamannafundi FH og Vals á Hlíðarenda í dag.

„Við höfum verið duglegir að nýta ungu leikmennina okkar og þeir eru komnir í stór hlutverk þannig að við erum klárir í álag“, bætti Aron við.

Mikil athygli verður á leikjunum gegn Gummersbach, Toulouse og Sävehof í riðlinum og segir Aron það geta komið ungum og efnilegum FH-ingum á kortið spili þeir vel.

Aron Pálmarsson hleður í skot gegn ÍBV.
Aron Pálmarsson hleður í skot gegn ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Handbolti er ekki það stór grein á heimsmælikvarða og tveir-þrír góðir leikir í þessari keppni geta komið þér á radarinn hjá liðum í Evrópu. Þannig að þetta er risa gluggi fyrir okkar leikmenn“, segir landsliðsfyrirliðinn sem hefur spilað fyrir stærstu félög heims undanfarin fimmtán ár.

FH ætlar sér að keppa um alla titla í ár og blaðamaður veltir því upp hvort leikir gegn atvinnumannaliðum geti hjálpað FH að verða betra lið þegar keppt verður um bikarana á Íslandi eftir áramót.

„Jú ég er sammála því, við fáum stærri leiki og sérstaklega er gott að þeir séu spilaðir allir fyrir áramót þar sem oft er kúnst að halda góðri einbeitingu í deild þar sem er spiluð úrslitakeppni um vorið. Við sjáum það á úrslitum í deildinni hingað til“, sagði Aron að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert