Stærsti viðburður síðan HM 95

Frá blaðamannafundi FH og Vals á Hlíðarenda í dag. Ásgeir …
Frá blaðamannafundi FH og Vals á Hlíðarenda í dag. Ásgeir Jónsson er lengst til hægri. Ljósmynd/FH

Valur og FH héldu sameiginlegan blaðamannafund til að kynna Evrópukvöld í Kaplakrika sem fram fer 15. október næstkomandi. Þar spila Valsmenn fyrst gegn Porto og í kjölfarið mætir FH Gummersbach.

„Við erum ofboðslega spennt. Þetta er stór dagur fyrir okkur FH-inga en við eigum 95 ára afmæli 15. október. Þetta er svakalegur viðburður sem mun eiga sér stað og stærsti handboltaviðburður landsins síðan HM 1995,“ sagði Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH.

Jón Halldórsson, formaður handknattleiksdeildar Vals, segir þetta vera afmælisgjöf Vals til FH.

„Ein hugmynd var að halda þennan viðburð í Laugardalshöll en því fylgir ákveðinn aukakostnaður fyrir félögin. Þá var spurning hvort við yrðum á Hlíðarenda eða í Kaplakrika og þegar við komumst að því að FH ætti afmæli þennan dag ákváðum við að gefa FH það í afmælisgjöf að spila í Kaplakrika og það er okkar heiður,“ sagði Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert