Stefnum ekki á að spila sambabolta

Gunnar Steinn ræðir við sína menn í kvöld.
Gunnar Steinn ræðir við sína menn í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Mér fannst við eiga góðan möguleika í dag, við nýtum hann ekki nógu vel. Siggi varði vel í markinu og við höngum lengi inni í leiknum.

Mér fannst ÍBV vera í göngubolta og við nýttum það ekki nógu vel,“ sagði Gunnar Steinn Jónsson, þjálfari Fjölnis, eftir að hans menn lágu 30:22 fyrir Eyjamönnum í Vestmannaeyjum í kvöld í úrvalsdeildinni í handbolta.

Leikurinn var skrýtinn þar sem mikið var um tapaða bolta á köflum í leiknum og mikið um brottvísanir, 14 talsins.

„Það var ekki dómurunum að kenna að við töpuðum þessum leik en þeir settu línu í byrjun sem þeir náðu ekki að snúa við, þess vegna varð þetta eins og einhver grófur handboltaleikur sem þetta var alls ekki. Þetta var eins og æfingaleikur en samt var alltaf verið að reka menn út af,“ sagði Gunnar spurður út í brottvísanirnar.

Gunnar Steinn Jónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Gunnar Steinn Jónsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Fjölnir vann góðan sigur á HK um daginn en þar átti Gunnar Steinn góðan leik, hann lék ekki með í dag, hvers vegna?

„Ég er meiddur eiginlega en svo einmitt treysti ég hinum leikmönnunum til að gera þetta almennilega. Ég fékk brákað eða brotið rifbein eftir síðasta leik, ég verð því ekki með í einhvern tíma en það er fullt af góðum leikmönnum sem taka við.“

Fjölnir skorar bara 22 mörk í dag, hvað hefði liðið þurft að gera betur til að skora fleiri?

„Við erum ekki að stefna á að spila einhvern sambabolta, við nýtum illa yfirtölu og færi, ég hefði verið sáttur við 28 mörk en einmitt þá var þetta hægt og við vorum ekki góðir í dag.“

Fjölnismenn misstu mann af velli með axlarmeiðsli snemma leiks og misstu síðan báða línumenn sína útaf með þrjár tveggja mínútna brottvísanir í síðari hálfleik. Það reyndi því heldur betur á breiddina í leikmannahópnum.

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var skrýtinn leikur þar sem við endum á að spila ekki með neinn línumann, báðir línumennirnir með þrisvar tvær mínútur, ég er þó ekki að kvarta yfir því en mér finnst við ekki vera nógu skarpir. Við eigum góða möguleika þegar ÍBV spilar svona.“

Hver eru markmið Fjölnis fyrir leiktímabilið og hvernig finnst Gunnari mótið hafa farið af stað hjá sínum mönnum?

„Við erum dottnir í gömlu tugguna að taka einn leik í einu, þetta voru mikilvæg stig síðast eftir þunga byrjun, mér finnst við stöðugri í dag heldur en í þessum fyrstu tveimur leikjum. Við erum nýtt lið með nýjan þjálfara, margir eru að taka sín fyrstu skref, þetta mun taka tíma hjá okkur en mér finnst við vera að vaxa og við munum stela stigum hér og þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert