Fór hamförum í Noregi

Dagur Gautason í leik með KA á sínum tíma.
Dagur Gautason í leik með KA á sínum tíma. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Dagur Gautason átti stórleik fyrir Arendal þegar liðið vann stórsigur á Haslum, 38:29, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.

Dagur gerði sér lítið fyrir og skoraði níu mörk úr tíu skotum og var markahæstur í leiknum. Þar af skoraði vinstri hornamaðurinn úr öllum sex vítaköstunum sem hann tók.

Árni Bergur Sigurbergsson var ekki í leikmannahópi Arendal.

Íslendingalið Kolstad hafði örugglega betur gegn Runar, 37:31, þar sem fjórir Íslendingar komust á blað.

Benedikt Gunnar Óskarsson, bróðir hans Arnór Snær, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu allir eitt mark fyrir Kolstad.

Enn einn Íslendingurinn var í sigurliði í kvöld, Ísak Steinsson hjá Drammen sem vann sterkan útisigur á Fjellhammer, 28:27.

Ísak varði þrjú skot í marki Drammen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert