Örvhenta stórskyttan Kristján Örn Kristjánsson fór á kostum hjá Skanderborg þegar liðið vann sterkan sigur á Bjerringbro-Silkeborg, 33:30, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.
Það er ekki að ósekju að rætt sé um Kristján Örn, eða Donna eins og hann er ávallt kallaður, sem stórskyttu.
Hann skoraði nefnilega tíu mörk úr 14 skotum og gaf auk þess þrjár stoðsendingar. Var Donni þrátt fyrir það ekki markahæstur í leiknum þar sem Peter Balling skoraði 11 mörk fyrir Bjerringbro-Silkeborg.
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu fyrir Bjerringbro-Silkeborg.
Íslendingalið á sigurbraut
Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni þar sem Elvar Ásgeirsson skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar í 37:22-stórsigri Ribe-Esbjerg á útivelli gegn Kolding.
Ágúst Elí Björgvinsson var í marki Ribe-Esbjerg en á heimasíðu danska sambandsins komu ekki fram upplýsingar um markvörslu í leiknum.
Lærisveinar Guðmundar Þ. Guðmundssonar í Fredericia unnu sterkan útisigur á Skjern, 31:27, fyrr í kvöld.
Einar Þorsteinn Ólafsson gaf eina stoðsendingu í liði Fredericia en Arnór Viðarsson lék ekki vegna meiðsla.
Nafni þess síðastnefnda, Arnór Atlason, stýrði sínum mönnum í Tvis Holstebro þegar liðið gerði jafntefli, 31:31, á heimavelli gegn Mors.