Enskir ræða rasisma í Rússlandi

Ashley Young á æfingu með enska liðinu.
Ashley Young á æfingu með enska liðinu. AFP

Leikmenn enska landsliðsins í fótbolta hafa rætt saman um hvernig þeir ætli að bregðast við, verði þeir fyrir barðinu á rasisma á HM í Rússlandi í næsta mánuði. Rússneska knattspyrnusambandið var sektað um 25.000 evrur, um þrjár milljónir króna, fyrir rasisma eftir vináttuleik við Frakka í mars.

„Ég er ekki viss hvernig maður bregst við þessu þegar maður er á vellinum," sagði Ashley Young, leikmaður Manchester United og landsliðsins, í samtali við BBC. „Við höfum rætt um það og við munum ræða það betur þegar nær dregur hvað við ætlum og ætlum ekki að gera."

Paul Pogba, Ousmane Dembele og N'Golo Kante urðu allir fyrir rasisma í 3:1-sigrinum á Rússum í mars. Leikurinn var spilaður á Krestovsky-vellinum í Sankti Pétursborg, en hann er einn af völlunum sem notaður verður á HM. 

„Við verðum að halda haus, sama hvað. Við viljum enda með 11 leikmenn á vellinum og róa hvorn annan niður ef þess þarf. Við munum láta dómarann vita ef eitthvað gerist," sagði Young að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert