Eins og 100 metra hlaup

Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands.
Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands. AFP

Það hefur vakið furðu margra knattspyrnuáhugamanna að Leroy Sané hlaut ekki náð fyrir augum Joachim Löw landsliðsþjálfara Þjóðverja í knattspyrnu þegar hann valdi lokahópinn sem leikur á HM í sumar.

Sané átti frábært tímabil með Englandsmeisturum Manchester City og var útnefndur besti ungi leikmaðurinn í deildinni. Löw segir að valið hafi staðið á milli Sané og Julian Brandt leikmanns Bayer Leverkusen og á endanum hafi hann ákveðið að velja Brandt.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun en Leroy er mikið efni og hann verður með okkur aftur í september. Þetta var eins og 100 metra hlaup þar sem Brandt var hársbreidd á undan,“ sagði Löw á fréttamannafundi í dag.

Sané hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með þýska landsliðinu en honum hefur hvorki tekist að skora né leggja upp í þeim 12 leikjum sem hann hefur spilað með. Hann skoraði hins vegar 14 mörk og gaf 19 stoðsendingar með Manchester City í öllum keppnum á leiktíðinni.

Ekki er útilokað að Sané verði með á HM. Ef einhver sóknarmaður meiðist fyrir fyrsta leikinn þá getur Löw skipt út leikmanni sólarhring fyrir fyrsta leikinn sem er gegn Mexíkó þann 17. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert